Halldór Gunnar Hálfdansson bóndi á Molastöðum í Fljótum tók þessar fallegu myndir á nýjársdag.

Eins og sjá má á myndunum er birtan engu lík, logagyllt og fjólublá slikja yfir lofti, láði og legi.

Fljót eru nyrsta byggðarlag í Skagafirði austanverðum. Þau skiptast í Austur- og Vestur-Fljót og ná frá Stafá í vestri að sýslumörkum Eyjafjarðarsýslu í austri. Í norðri eru mörkin milli sýslnanna um Almenningsnöf.

Flókadalur og Bakkar hafa alla tíð tilheyrt Fljótum allt frá Stafá norður með Miklavatni, út að Hraunum, sem er nyrsti bær í Fljótum og þar með Skagafjarðarsýslu, og hét svæðið Haganeshreppur í eina tíð.

Í eldgömlum sögum er talað um Fljótin þegar sagt er frá Hrafna Flóka en hann er einmitt kenndur við bæ sem heitir Ysti Mór og er í mynni Flókadals, sem kenndur er við og nefndur eftir Hrafna Flóka.

Svæðið austan Hópsvatns og út á Haganes og svo meðfram suðurströnd Miklavatns er oft kallað einu nafni Vestur-Fljót. Austur-Fljót eru svo þar fyrir norðan og austan, en innri hluti Fljótadalsins, innan við Stífluhóla, heitir Stífla.

Fljótin eru grösug en snjóþung. Þar er allstórt lón eða stöðuvatn, Miklavatn. Þar eru einnig önnur nokkuð stór vötn, Hópsvatn, Flókadalsvatn og Stífluvatn, sem er uppistöðulón sem myndaðist þegar Skeiðsfossvirkjun var byggð. Stífluá rennur (eða rann) um Stíflu, en eftir að kemur niður fyrir Stífluhóla og Skeiðsfossvirkjun heitir hún Fljótaá. Hún rennur í Miklavatn. Grandinn framan við vatnið heitir Hraunamöl. Þaðan og úr Haganesvík var áður mikið útræði og hákarlaveiði. Haganesvík var áður verslunarstaður. Nú rekur Kaupfélag Skagfirðinga útibú á Ketilási, fyrir botni Miklavatns. Þar er líka félagsheimilið Ketilás.

Tveir kirkjustaðir eru í Fljótum, Barð í Vestur-Fljótum og Knappsstaðir í Stíflu. Áður var þriðja kirkjan í Stóra Holti og þar er gamall kirkjugarður sem henni fylgdi.

Víða í Fljótum er jarðhiti og á Sólgörðum er sundlaug.

Heimild/Wikipedia
Myndir/Halldór Gunnar Hálfdansson