Miðvikudaginn 6. júní fóru 37 eldri borgarar úr félagi eldri borgara á Siglufirði til Vestmannaeyja sér til skemmtunar og fróðleiks. Með í för var bæjarlistamaður Fjallabyggðar Sturlaugur Kristjánsson til að halda uppi fjörinu með harmonikkuleik og annarri tónlist.

Haldið var með rútu í Landeyjarhöfn og Herjólfur tekinn yfir til Eyja. Þegar komið var til Vestmannaeyja fór hópurinn og snæddi kínverskan mat og síðan gengið til náða eftir langan dag. 17 manns gistu hjá Siglfirðingunum Svövu Gunnarsdóttur og Stefáni Birgissyni á Gistiheimilinu Hamri sem þau eiga og reka. Um 10 manns gistu á Hótel Eyjum.

Um 17 manns gistu á Gistihúsinu Hömrum, Siglfirðingarnir Svava Gunnarsdóttir og Stefán Birgisson reka það og eiga.

Fimmtudaginn 7. júní fór hópurinn í skoðunarferð um eyjuna undir leiðsögn Snorra Óskarssonar, sem kenndur er við Betel. Að sögn var hann leiftrandi skemmtilegur leiðsögumaður og fróður með eindæmum. Eftir þessa fróðlegu ferð víða um eyjuna var haldið í Eldheima.

Síðan fór hópurinn i boðsferð til Rafns Sigurðssonar frá Dalabæ og frúar. Hann var skipstjóri og útgerðarmaður á Dala Rafni VE 508. Hefur hann komið sér upp áhugaverðu safni með allskonar tækjum, tólum og skipslíkönum. Móttökurnar voru höfðinglegar þar sem þau hjónin kynntu fyrir hópnum safnið og buðu upp á veitingar. Var rómur manna að þarna væri falinn fjársjóður á ferð og einstakt safn þar sem allir væru velkomnir án endurgjalds.

Hluti úr hópnum fór síðan í Sæheima og eftir það var borðaður kvöldverður í Slippnum. Þar var sem annars staðar tekið vel á móti hópnum og hafði starfsfólkið orð á því hvað þarna væri huggulegt fólk á ferð og smart í tauinu. Stúlli spilaði svo fyrir gesti og gangandi á milli atriða.

Sturlaugur Kristjánsson spilaði á nikkuna í ferðinni

Föstudaginn 8. júní hélt hópurinn heim á leið eftir sérlega vel heppnaða ferð þar sem veðurguðirnir buðu upp á sól og blíðu á meðan á dvöl þeirra stóð en svo fór að rigna um leið og lagt var af stað heim.

Á heimleiðinni var stoppað í Geira bakarí í Borgarnesi þar sem þeirra beið girnilegt hlaðborð í boði Siglfirðingsins Sigurgeirs Erlendssonar. Hann hefur verið alveg einstaklega almennilegur við eldri borgara á Siglufirði í gegnum tíðina. Komið var heim á Sigló um kvöldið og allir sem einn virkilega ánægðir með ferðina.

Báðu þau um þakklætiskveðjur til allra sem tóku vel á móti þeim í ferðinni, þeim leið eins og konungbornu fólki eftir allan þennan velgjörning.

Meðfylgjandi er myndasyrpa sem Sveinn Þorsteinsson tók í ferðinni.

Hér má skoða fleiri myndir frá ferðinni á heimasíðu Sveins:  Skoða hér

Á leið suður

 

 

 

 

 

Hér má sjá Sigurð Helga Sigurðsson standa við hús sem varð eldgosinu í Eyjum að bráð. Það má geta þess að Sigurður gisti í þessu húsi nóttina þegar gosið hófst

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Myndir: Sveinn Þorsteinsson
Texti: Kristín Sigurjónsdóttir