
Tvö ný sjálfteljandi píluspjöld með Scolia myndavélakerfi voru tekin í notkun hjá Pílufélagi Siglufjarðar í Segli 67.
Tvö ný píluspjöld voru tekin í notkun í gærkvöldi hjá Pílufélagi Siglufjarðar, sem hefur aðstöðu í Segli 67. Spjöldin eru búin Scolia sjálfteljandi myndavélakerfi sem þykir afar nákvæmt og áreiðanlegt og uppsetning spjaldanna styrkir aðstöðuna til muna og bætir æfingaumhverfi félagsins verulega.
Af þessu tilefni var efnt til pílumóts með stuttum fyrirvara þar sem tólf keppendur tóku þátt. Keppt var í fjórum riðlum með þremur keppendum í hverjum riðli og fóru tveir efstu áfram úr hverjum riðli í útsláttarkeppni.
„Við ákváðum með stuttum fyrirvara að halda tólf manna riðlamót, þrír í hverjum riðli og tveir áfram,“
sagði Ögmundur Atli Karvelsson, formaður Pílufélags Siglufjarðar, í samtali við trolli.is.
Í A riðli bar Ögmundur Karvelsson sigur úr býtum með tvo sigra úr tveimur leikjum. Daníel F. Ragnarsson hafnaði í öðru sæti með einn sigur en Sigurður lauk keppni án sigurs. B riðill reyndist jafnari en flestir, þar sem Björn Guðnason, Kristófer Þór Jóhannsson og Páll Þorvaldsson enduðu allir með eitt stig og einn sigur. Þurfti því að grípa til svokallaðs „búlls“, þar sem keppendur kasta pílu sem næst miðju til að skera úr um endanlega röðun. Í ljósi þess að einn keppandi þurfti að yfirgefa mótið fyrr fékk þriðja sæti B riðils að taka við öðru sæti í D riðli.
Í C riðli var Jakob Auðunn Sindrason sterkastur með tvo sigra, Gabríel Reynisson varð annar og Sigurjón Sigurðsson þriðji. Í D riðli stóð Ástþór Árnason efstur, Hulda Magnúsardóttir í öðru sæti og Hrafnhildur Ása Einarsdóttir í því þriðja.
Í átta liða úrslitum og undanúrslitum fóru leikir þannig að Gabríel Reynisson lagði Ögmund Karvelsson, Jakob Auðunn Sindrason sigraði Daníel F. Ragnarsson, Páll Þorvaldsson vann Kristófer Þór Jóhannsson og Björn Guðnason hafði betur gegn Ástþóri Árnasoni. Í næstu umferð sigraði Gabríel Björn en Jakob hafði betur gegn Páli.
Í úrslitaleik mættust Jakob og Gabríel og þar var það Jakob Auðunn Sindrason sem stóð uppi sem sigurvegari.
Jakob hlaut að launum kippu af bjór frá Segli og pílutösku frá Pingpong.is.
Þeir keppendur sem töpuðu í átta liða úrslitum tóku einnig þátt í útsláttarkeppni þar sem Daníel F. Ragnarsson laut í lægra haldi fyrir Kristóferi Þór Jóhannssyni og Ögmundur Karvelsson sigraði Ástþór Árnason. Í úrslitum þeirrar keppni hafði Kristófer síðan betur gegn Ögmundi og hlaut í verðlaun kippu af jólabjór.
Myndir: Pílufélag Siglufjarðar




