Mikil úrkoma hefur verið í Fjallabyggð undanfarna sólarhringa, svo mikil að holræsakerfi Siglufjarðar hefur ekki undan. Það er nýbúið að endurnýja lagnir á Eyrinni og byggja nýjar dælustöðvar sem hafa ekki annað auknum vatnsflaum.
Fréttamaður Trölla.is fór og náði tali af nokkrum íbúum sem hafa fengið vatn inn í hús sín og segja þeir að vatnið hafi komið upp um niðurföll og salerni.
Starfsmenn Fjallabyggðar, Slökkviliðið og dælubílar frá Akureyri vinna hörðum höndum við að dæla úr húsum, holræsum og framhjá nýju dælunni í dæluhúsinu sem ekki annar vatnsflaumnum.
Trölli.is mun fylgjast frekar með í dag og hafa tal af þeim sem að málinu vinna.