“Við sóttum konu í skip sem var ca 140 sjómílur NA af Langanesi, tókum eldsneyti tvisvar sinnum úr lofti við varðskip sem var mitt á milli Norðurstrandarinnar og skemmtiferðaskipsins sem konan var í. Við enduðum á að vera 6 klukkustundir í lofti án þess að lenda og svo skemmtilega vildi til að fluglínan lá yfir Siglufjörð” segir Andri Jóhannesson þyrluflugmaður sem tók þessa (forsíðu) mynd af Siglufirði á leiðinni og sendi okkur á Trölla.is.
Í samtali við mbl.is segir Guðmundur Rúnar Jónsson hjá Landhelgisgæslunni að um sögulegt flug sé að ræða því þetta sé í fyrsta sinn sem þyrla Gæslunnar notast við sérstakan búnað (HIFR) sem gerir henni kleift að taka eldsneyti á ferð.
Sjaldgæft er að þyrlan sé kölluð út í verkefni svo langt frá landi og neyddist hún til að taka eldsneyti á leið sinni frá Reykjavík að skipinu. Varðskip Gæslunnar, Týr, var á siglingu um 80 kílómetra norðaustur af Melrakkasléttu með eldsneytistank og segir Guðmundur að þyrlan hafi híft upp eldsneytisslöngu af skipinu og fyllt á tankinn áður en haldið var að skemmtiferðaskipinu að sækja þann sjúka.
Þegar mbl.is náði tali af Guðmundi rétt rúmlega tíu var búið að sækja sjúklinginn og þyrlan komin aftur að Tý þar sem fyrirhugað var að fylla á tankinn að nýju áður en haldið er til Reykjavíkur.
Skemmtiferðaskipið sem um ræðir er franskt og var á leiðinni frá Svalbarða til Reykjavíkur þegar einn farþeginn veiktist skyndilega.
Frétt: mbl.is og Gunnar Smári Helgason
Forsíðumynd: Andri Jóhannesson
Seinni mynd: Guðmundur St. Valdimarsson