Fiskidagurinn mikli verður haldinn hátíðlegur í Dalvíkurbyggð nú um helgina. Eins og áður er búist við miklum fjölda gesta til Dalvíkur og verðum við því að huga sérstaklega að umferðarskipulagi. Nokkrum götum næst hafnarsvæðinu á Dalvík verður lokað, hjáleiðir merktar og umferð stýrt af lögreglu og björgunarsveit þar sem þarf. Fyrstu lokanir verða settar upp á föstudaginn og munu væntanlega standa fram á sunnudagsmorgunn. Björgunarsveit Dalvíkur mun aðstoða okkur við þetta og eru ökumenn því beðnir um að virða og fara eftir umferðarmerkjum og leiðbeiningum lögreglu og björgunarsveitafólks. Munið bara að það verður nóg pláss fyrir alla en það getur tekið tíma að koma öllum fyrir, þolinmæði og tillitssemi er allt sem þarf.

Að gefnu tilefni er rétt að undirstrika að skv. reglugerð nr. 990/2017 er umferð dróna yfir mannfjölda bönnuð. Einnig er minnt á að ekki er heimilt að vera með hunda á hátíðarsvæðinu.

Við viljum minna fólk á að reikna má með miklum fjölda ökutækja á Dalvík á laugardagskvöldinu. Þegar flugeldasýningunni lýkur, verða ökumenn að taka með í reikninginn að það tekur tíma að komast úr bænum. Við biðjum ykkur því að sýna þolinmæði og samvinnu meðan á þessu stendur.

Og að lokum eru hérna 10 einföld Fiskidagsboðorð og það má segja að það að fylgja boðorðunum sé eina gjaldið sem þarf að greiða til Fiskidagsins mikla og íbúa Dalvíkurbyggðar.

Við göngum vel um
Við virðum hvíldartímann
Við virðum náungann og umhverfið
Við verjum Fiskdeginum mikla saman
Við virðum hvert annað og eigur annara
Við virðum útivistarreglur unglinga og barna
Við erum dugleg að knúsa hvert annað
Við beygjum okkur 2 sinnum á dag eftir rusli
Við förum hóflega með áfengi og virðum landslög.
Við hjálpumst að við að halda Fiskidagsboðorðin.

Eigum öll góða og óhappalausa helgi.

Mynd: Bjarni Eiríksson 
Frétt: Lögreglan á Norðurlandi eystra