Í gær tóku nemendur úr 8. – 10. bekk Grunnskóla Fjallabyggðar þátt í hinni árlegu ljóðasamkeppni hátíðarinnar.

Líkt og síðustu ár fóru yrkingarnar fram í Menntaskólanum á Tröllaskaga í Ólafsfirði.

Þar var búið að setja upp myndlistarsýningu með verkum nemenda úr MTR, sérstaklega af þessu tilefni. Voru verkin notuð sem kveikjur að ljóðum, eftir að Þórarinn Hannesson stjórnandi hátíðarinnar, hafði gefið nemendum góð ráð í ljóðagerð.

Um 70 ljóð urðu til hjá nemendunum og nú bíður dómnefndar það spennandi verkefni að vega og meta ljóðaafurðirnar. Í desember verða úrslit kunngjörð og höfundar þeirra ljóða sem fá flest stig hjá dómnefndinni verða verðlaunaðir.

Ljóðasamkeppnin er samstarfsverkefni Ungmennafélagsins Glóa, Ljóðaseturs Íslands, Grunnskóla Fjallabyggðar og Menntaskólans á Tröllaskaga. Í ár er hún einnig hluti af Barnamenningarhátíð sem stendur yfir í Fjallabyggð þessa viku.

Á föstudaginn munu nemendur 1. og 2. bekkjar Grunnskóla Fjallabyggðar heimsækja Ljóðasetrið og fá þar fræðslu og skemmtun.

Hægt er að sjá fleiri myndir á facebooksíðu Haustglæða.

Forsíðumynd/Haustglæður