Um helgina var Íslandsmótið í hrútadómum haldið á Sauðfjársetrinu í Sævangi á Ströndum.
Nýr meistari var krýndur, en Strandamenn náðu ekki að landa sigri að þessu sinni. Sigurvegari í vana flokknum og þar með Íslandsmeistari í hrútaþukli varð Gunnar Steingrímsson Stóra-Holti í Fljótum. Í öðru sæti varð Marinó Helgi Sigurðsson á Hólmavík og er hann yngsti keppandi til að komast á pall í vana flokknum frá upphafi. Í þriðja sæti varð Þórður Halldórsson Breiðabólstað á Fellsströnd í Dölum. Alls kepptu 35 í vana flokknum. Eyjólfur Yngvi Bjarnason ráðunautur var yfirdómari að þessu sinni og fær bestu þakkir fyrir vel unnin störf.
Í flokki óvanra og hræddra hrútaþuklara (sem eru þeir sem ekki kunna að stiga hrútana eftir stigakerfinu sem vanir nota í keppninni). Í fyrsta sæti í þeim flokki varð Elín Þóra Stefánsdóttir í Bolungarvík og er það alls ekki í fyrsta skipti sem hún kemst á verðlaunapall. Í öðru sæti varð Katrín Jónasdóttir á Þúfnavöllum í Hörgárdal í Eyjafirði. Þriðja varð Bjarnheiður Fossdal á Melum í Árneshreppi og hún hefur einnig verið á verðlaunapalli áður. Alls voru 17 keppendur í flokki óvanra.





Blíðskaparveður var og fjölmenni á staðnum, talið er að rúmlega 300 gestir hafi litið við yfir daginn. Glæsilegt kaffihlaðborð var á boðstólum og ókeypis á sýningar setursins. Sauðfjársetrið þakkar öllum kærlega fyrir komuna. Fjöldi aðila styrkti keppnina með því að gefa vinninga og fá þau einnig bestu þakkir fyrir. Fyrirtæki sem gáfu vinninga eru: Ístex og Sauðfjársæðingastöð Vesturlands sem gáfu mjög veglega vinninga, Kalksalt á Flateyri, Hótel Örk í Hveragerði, Gestastofa sútarans, Kaupfélag Borgfirðinga, Sögusmiðjan, Landnámssetur Íslands, bændur í Ásgarði í Dölum, Syðra-Skörðugil í Skagafirði og Rjómabúið Erpsstöðum.
Líflambahappdrætti var einnig á staðnum og gengu þrír vinningar út á staðnum, en tveir fóru til fjarstaddra sem höfðu keypt miða í forsölu.
Mikil gleði og ánægja var með hátíðina hjá aðstandendum og gaman að halda Hrútadóma að nýju eftir að þeir hafa fallið niður í tvö ár út af Covid.
Forsíðumynd: Sigurvegararnir Þórður, Marinó og Gunnar
Myndir/aðsendar