Ég heiti Albert Einarsson og fæddist heima á Hvanneyrarbraut 62, í kjallaraíbúðinni, og ólst upp úti í bakka og ekki vantaði leiksvæði – fjallið, fjaran og bakkarnir. Það var alltaf eitthvað við að vera.
Pabbi, Einar M. Albertsson, var skósmiður, verkamaður og síðar meir póstmaður um langt skeið. Mamma, Þórunn Guðmundsdóttir, alltaf kölluð Dúdda, var verkakona og vann m.a. í frystihúsi SR, en ég man mest eftir því að hún skúraði í barnaskólanum og svo vann hún lengst af í þvottahúsi sjúkrahússins. (Meira um þau Einar og Dúddu hér (Einar) og (Dúdda).
Ég var kennari og skólameistari á Íslandi og flutti svo til Noregs og starfaði þar við menntamál, einkum menntun fullorðinna.
Flugdrekar
Það greip um sig flugdrekaæði, svona eins og gerist þegar eitthvað skemmtilegt tekur völdin. Pabbi hjálpaði mér að búa til flugdreka. Hann náði í þunnar spýtur, sem hann batt saman í kross. Svo setti hann band sem tengdi saman endana og á þetta setti hann svo maskínupappír, sem var frekar þykkur umbúðapappír. Svo útbjó hann skott, sem var svona u.þ.b. einn meter langt. Út frá hverjum armi drekans var festur spotti sem bundnir voru saman undir drekanum. Í þetta var svo fest línan sem drekinn var dreginn upp með. Pabbi festi línu, eða snæri, sem var a.m.k. tíu metrar.
Margir krakkar voru á flugdrekasvæðinu utan og ofan við Jón í Tungu og Dalabæ. Ég fór þangað með drekann minn og setti á loft. Mér þótti strax línan vera heldur stutt og þung. Hinir krakkarnir höfðu lengri línu og drekarnir svifu hátt.
Mér kom í hug að mamma, sem hafði sem heimavinnu að hnýta net fyrir Netastöðina, hafði allstórt kefli með línu inni á baði, þar sem hún hnýtti netin. Ég skaust heim og inn á bað og viti menn þarna var keflið. Uppi á drekasvæðinu voru krakkarnir með sína dreka svífandi í miklum hæðum. Ég batt nú línuna góðu frá mömmu í þá stuttu frá pabba og setti drekann minn á loft. Nú var minn dreki ekki með þeim lægstu á lofti, nú sveif minn hærra en allir hinir drekarnir og enn hærra og nú var línan á keflinu búin og ég hélt í bláendann. Vindarnir í háloftum toga sterkt í og ég sem var ekki mörg kíló sjálfur hafði ekki kraft til að toga á móti hlaut að gefa eftir. Annaðhvort færi ég á loft eða drekinn minn svifi á brott, færi bara sína eigin leið. Það fór nefnilega þannig að drekinn minn hvarf upp í himingeyminn og línan góða frá mömmu líka.
Þegar mamma spurði hvort ég hefði séð keflið með línunni inni á baði, þá varð ég að viðurkenna og segja alla söguna eins og hún birtist hér. Mamma sagði mér seinna að hún hefði brosað að þessu uppátæki mínu, en ekki svo að ég sæi.
Á forsíðumynd má sjá gamla sjúkrahúsið og prestsetrið, móðir Alberts vann á sjúkrahúsinu.
Forsíðumynd/Albert Einarsson