Matvælastofnun vill minna á að flugeldar og önnur skoteldanotkun geta valdið dýrum miklum ótta og jafnvel ofsahræðslu. Hjá mörgum dýrum byggist hræðslan upp með tímanum og getur versnað frá ári til árs ef ekki er brugðist við. Mikilvægt er að dýraeigendur undirbúi dýrin sín vel og geri viðeigandi ráðstafanir til að draga úr vanlíðan og slysahættu á þessu tímabili.
Almenn notkun skotelda er einungis heimil frá 28. desember til 6. janúar, og þá aðeins frá klukkan 10 að morgni til 22 að kvöldi, að nýársnótt undanskilinni, samkvæmt reglugerð um skotelda. Í reglugerðinni er jafnframt kveðið á um að sérstakt tillit skuli tekið til dýra og að notkun skotelda sé bönnuð í grennd við gripahús.
Matvælastofnun hvetur almenning eindregið til að virða þessar reglur og takmarka skoteldanotkun við leyfilegan tíma, þar sem ófyrirsjáanleg læti utan hans geta haft alvarleg áhrif á dýr, bæði gæludýr og búfé.
Undirbúningur skiptir máli
Margt er hægt að gera til að hjálpa dýrum að takast á við hávaða og óvænt áreiti. Fyrir sum dýr getur gagnast að hefja undirbúning tímanlega, meðal annars með:
- bætiefnum sem stuðla að tilfinningalegu jafnvægi og geta dregið úr streitu og hræðslu
- þjálfun og aðlögun þar sem mögulegt er
- eða kvíðastillandi lyfjum sem dýralæknir dýrsins ávísar
Dýraeigendum er bent á að hafa samband við dýralækni tímanlega ef grunur leikur á að dýrið þoli illa flugeldahljóð, þar sem slík lyf þarf oft að stilla af fyrirfram.
Sérstakar ábendingar til dýraeigenda
Til að fyrirbyggja vanlíðan og slys eru dýraeigendur hvattir til að hafa eftirfarandi í huga:
- Haldið köttum inni
- Hafið hunda ávallt í taumi í þéttbýli og í nágrenni þess, jafnvel þótt aðeins sé farið út í garð
- Farið í lengri göngutúr með hunda snemma dags, helst utan þéttbýlis
- Ekki skilja dýrin eftir ein
- Veitið dýrunum rólega, jákvæða athygli og góða umönnun
- Lokið gluggum, dragið gluggatjöld fyrir og hafið ljós kveikt
- Hafið dýrin á stað sem þau þekkja og líður vel á
- Ef hundur er tekinn með á brennur eða í annan gleðskap, skal veita honum fulla athygli og fara með hann burt af svæðinu þegar hann sýnir merki um streitu
- Hafið samband við dýralækni ef þörf er á róandi eða kvíðastillandi lyfjum
Búfé og hestar
- Hestum á húsi skal gefa vel, hafa ljósin kveikt og jafnvel útvarp í gangi til að deyfa skyndileg hljóð
- Hestar á útigangi ættu að vera á svæði sem þeir þekkja vel og hafa nægilegt fóður
- Forðast skal skoteldanotkun í grennd við gripahús
Að lokum
Matvælastofnun minnir á að ábyrg og tillitssöm notkun skotelda stuðlar að bættri velferð dýra og öryggi allra. Nánari leiðbeiningar um hættur í umhverfinu má finna á heimasíðu stofnunarinnar, auk ályktunar fagráðs um velferð dýra um áhrif skotelda á dýr.




