Björgunarsveitin Strákar verður með flugeldasýningu á Siglufirði í kvöld kl. 21 á Vesturtanga.

Fréttamenn Trölla fengu að kíkja inn í skemmu hjá þeim í gær þegar sprengjusérfræðingar sveitarinnar voru að undirbúa sýninguna.

Þetta verður í fyrsta sinn sem notaður er nýr tölvustýrður búnaður til að kveikja í flugeldunum og mátti greina talsverðan spenning í strákunum sem við töluðum við. Búnaðurinn er af sömu gerð og notaður hefur verið undanfarin ár á Fiskideginum mikla á Dalvík, og voru Dalvíkingar fengnir til að miðla af reynslu sinni í notkun búnaðarins og aðstoða við forritun. “Ef eitthvað klikkar þá er það Dalvíkingunum að kenna” – var haft á orði í léttu gríni.

Sýningin er forrituð í tölvu með mikilli nákvæmni, því hvert sekúndubrot skiptir máli til að allt fari eins og til er ætlast.

Búið er að smíða marga nýja skotpalla eftir kúnstarinnar reglum, til að flugeldarnir njóti sín sem best á himninum.

Í sýningunni eru 237 Tivoli-bombur, 10 tertur, 36 “silfurhalar” sem mynda blævæng og slatti af rakettum.

Samsetning og tengingar ganga vel og má búast við glæsilegri flugeldasýningu á gamlárskvöld.

Svo er bara að vona að veðurspáin gangi eftir.

 

.

 

Allt að komast á sinn stað.

 

Skotstjórarnir eru: Ragnar Már Hansson, Sigurjón Ólafur Sigurðarson og Magnús Magnússon.

 

Það er heilmikil kúnst og vinna að tengja saman flugelda svo vel fari.

 

Ragnar Már Hansson með skotborðið sem talar þráðlaust við kveikjukerfið, eða “cue-in”.

 

Nokkrar svona “cue” töskur sjá um að senda straum á hárréttum tíma í hvern hluta sýningarinnar.

 

Stóru strákarnir að versla.

 

Gunnar Smári vildi kaupa eina stóra og háværa í stíl við eiginkonuna og var það auðsótt mál.