Alloft hefur Trölli.is birt fréttir af Vatnsnesvegi vegna slæms ástands vegarins og óánægju íbúa sem um hann þurfa að fara.

RÚV birti í gær frétt þess efnis að foreldrar barna sem þurfa að fara veginn til og frá skóla íhugi að halda börnunum heima. Einnig hafa þau sett sig í samband við umboðsmann barna.

Meðal þess sem kom fram á RÚV.

“Margra ára barátta

Vatnsnesvegur er 70 kílómetra malarvegur frá Hvammstanga og út fyrir Vatnsnes. Hann hefur ítrekað verið til umfjöllunar síðustu ár þar sem fjallað hefur verið um slæmt ástand hans og tíð umferðarslys. Guðrún Ósk Steinbjörnsdóttir, grunnskólakennari, sem ekur veginn á hverjum degi segir ástandið aldrei hafa verið verra. „Vegurinn er bara ófær á löngum kafla ef maður getur orðað það þannig. Bílarnir svosem skrölta þetta og fólk þarf að nota veginn til að komast frá A til B en hann er bara hræðilegur,“ segir Guðrún. 

Foreldrar hafa fengið nóg

Tæplega þrjátíu börn þurfa að fara þar um á hverjum degi, allt að fimmtíu kílómetra, og nú segir Guðrún foreldra hafa fengið nóg. „Þannig að fólk er bara mjög alvarlega farið að skoða það, svona lagalega séð, hver réttur þeirra er til að halda börnum heima þegar ástandið er svona. Ég er búin að senda erindi til umboðsmanns barna og bíð eftir svari við því, bara reyna fá stuðning vegna þess að þetta eru bara ekkert viðunandi aðstæður fyrir lítil börn.“

Börn kvíðin

Hún segir veginn ekki bara orsaka óþægindi fyrir börn heldur geta afleiðingarnar verið verri. „Kennarar hafa lýst yfir áhyggjum sínum varðandi grunnskólabörn, vegna þess að þegar þau koma í skólann þá eru þau bara oft á tíðum ekki tilbúin til að fara að taka þátt í starfinu. Ég þekki það líka vegna þess að ég er að vinna í grunskólanum að ég veit alveg að það eru dæmi þess að börn sem búa á svæðinu eru hreinlega kvíðin fyrir því þurfa að ferðast í skólann.“

Mynd/ Guðrún Ósk Steinbjörnsdóttir