Páll Baldvin og Jón Ólafur. Mynd/samansett.

Yfirlýsing vegna bókarinnar Síldarárin 1867 – 1969 eftir Pál Baldvin Baldvinsson

Jón Ólafur Björgvinsson og Forlagið ehf. hafa komist að samkomulagi um lok ágreinings er varðar texta í þýðingu Jóns Ólafs sem birtist í bókinni Síldarárin 1867-1969. Taldi Jón Ólafur, sem ritað hefur greinar um Siglufjörð og síldarvinnslu á vefmiðlana trolli.is og siglo.is, að í bókinni hafi verið vísað til þýðinga sinna með ófullnægjandi hætti.

Í samkomulaginu felst að Forlagið mun leiðrétta tilvísanir í verk Jóns Ólafs í næstu útgáfu bókarinnar, sem var helsta krafa Jóns. Mun leiðréttingin ná bæði til umfjöllunar undir fyrirsögninni „Sumartúr á Íslandi“ blaðsíðum 751 og 752 og til textabrots á blaðsíðu 839 sem birtist undir fyrirsögninni „Úr sænsku jólablaði“.

Báðar umfjallanirnar eru unnar upp úr þýðingum Jóns. Annars vegar úr greininni „Sagan um Svaninn! Síldarveiðar, landlega og slagsmál o.fl. á Sigló 1935“ og birtist á vef siglo.is þann 9. nóvember 2017.

Hins vegar úr grein Jóns á sama miðli sem birtist þann 25. október 2016 undir fyrirsögninni „Sillstulkor i Siglufjord / Sænsk myndasyrpa frá 1945“.

Jón og Forlagið eru sammála um að með vandaðri heimildarvinnslu sé sjálfsögð virðing borin fyrir sögu Siglufjarðar og síldarvinnslu á Íslandi.

Skilja aðilar sáttir, en telja málinu lokið og munu ekki tjá sig frekar um það.

Jón Ólafur Björgvinsson er frá Siglufirði en er búsettur í Svíþjóð.
Í frítíma sínum hefur hann helst tileinkað sér sagnfræðilegrar heimilda- og ljósmyndavinnslu, greinaskrif og þýðingar á efni um síldarævintýrið á Siglufirði.