Þær eru líklega fleiri náttúruperlurnar í firðinum okkar en mörg okkar höfum gert okkur grein fyrir, og meira að segja eru þær margar hverjar “right under our nose” eins og það er stundum orðað á “erlensku”.

Fyrir nokkrum árum lagði ég leið mína upp í Hestskarð til að kanna hvort þaðan væri fær gönguleið upp á Pallahnjúk, en sú athugun sagði mér að slíkt væri mjög óskynsamlegt sökum kletta og brattleika. Alla vega ekki án einhvers klifurbúnaðar sem ég hef ekki yfir að ráða.

Á niðurleiðinni myndaði ég hins vegar nokkra ótrúlega fallega fossa í lækjunum sem renna úr Hestskarðsskálinni.

Nyrðri lækurinn er þeirri náttúru gæddur að þegar leysingar eru hvað mestar á vorin, vex duglega í honum og við það myndast þessi gullfallegi foss sem sjá má á myndinni hér að ofan. Hans nýtur þó yfirleitt frekar stutt við, því þegar mesti vetrarsnjórinn er bráðnaður úr skálinni og Skútustaðarbrúnunum sem eru norðan við og utarlega í skálinni, verður þarna aðeins lítill lækur sem seytlar niður hlíðina skammt innan við gangnamunna Héðinsfjarðarganganna.

Ég gerði mér svo ferð skömmu síðar til að skoða hinn lækinn sem rennur úr sömu skál, en í honum eru líka nokkrir mjög bráðmyndarlegir fossar. Leiðin lá fyrst að munna Héðinsfjarðargangna, en þegar þangað var komið beygði ég til hægri inn Skútudalinn og áleiðis að Borholunum. Rétt fyrir sunnan munnann er komið að báðum lækjunum. Þar sem ég hafði þegar myndað þann nyrðri, hélt ég áfram og staldraði við þann syðri. Þar gildir sama lögmálið, þ.e. fossarnir birtast á vorin þegar hlýnar í veðri og hverfa síðan þegar snjórinn er að mestu horfinn úr skálinni og fjallshlíðunum sem að henni liggja.

Þetta er eins konar fossasamstæða í syðri læknum.

Hér getur að líta efri hlutann en reyndar frá öðru sjónarhorni…

…og hérna þann neðri.

Í framhaldinu lá leiðin inn í Skútudalinn því enn var eftir að skoða nokkur misstór (eða lítil), en býsna lagleg vatnsföll sem eru ofarlega í Skútuánni við og mislangt fyrir ofan borholurnar í Laugarhólunum sem svo heita. Þegar komið er svo innarlega inn í dalinn höfum við ekið fram hjá Pallahnjúk og höfum fjall sem heitir Dísin á vistri hönd og/eða austan við okkur. Ég hef nefnilega stundum orðið var við að margur Siglfirðingurinn er ekkert með það alveg á hreinu hvað fjöllin sunnan við Hestsskarðið og austan dalsins heita, þ.e. Pallahnjúkur (harður framburður) og Dísin. Fyrir botni dalsins rís svo hin formfallega hyrna Móskógahnjúkur sem ég hef stundum sagt að sé klettóttur að framan en gerður úr rauðamöl að aftan eftir að ég gerði mér leið þar upp og sá hvernig hann lítur úr Héðinsfjarðarmegin.

En víkjum aftur að fossunum…

Vestan við borholurnar rennur myndarlegur lækur úr hlíðum Hólsfjalls og sameinast Skútuánni. Eins og sést á myndinni hér að ofan, tekur hver fossinn við af öðrum í Djúpagili eins og lækjargilið heitir. Og svo við rifjum upp fleiri örnefni, þá er þar fyrir ofan skál sem ýmist hefur ýmist verið nefnd Ísaksskál eða Saurbæjarskál. Skútudalur var líka nefndur Saurbæjardalur og Ráeyrardalur hér á árum áður eftir býlunum Saurbæ, sem stóð á ásnum skammt frá þar sem núna er nýji kirkjugarðurinn og Ráeyri sem var mikil og góð jörð áður en skriða hljóp úr Hestskarðshnjúki og eyddi stórum hluta af túnum og gerði þar mikil landspjöll.

Rétt fyrir ofan borholurnar er svo neðsti fossinn í sjálfri Skútuánni.

Og örfáum skrefum ofar er sá næsti.

Og enn er genginn svolítill spölur að þeim þriðja.

Þegar komið er upp fyrir hann, fer dalurinn að sveigjast lítillega til austurs en síðan aftur til vesturs enn ofar og krækir fyrir það sem heitir Steindyrahnjúkur. Þegar gengið er á Hólsfjall inn Skútudal, er besta leiðina að ganga upp fyrir hnjúkinn þrátt fyrir að sú leið sýnist nokkuð lengri neðan frá séð.

En það er ekki langt í þann fjórða og síðasta af þeim sem gætu talist af stærri gerðinni þarna í dalnum, en reyndar eru nokkrir smáfossar enn ofar. Þeir sem hér eru upp taldir eru margir hverjir á stærð við hinn fagra (og fræga) Leyningsfoss í skógræktinni og vatnsmagnið jafnvel svipað. Samt er eins og ótrúlega fáir hafi veitt þeim nokkra athygli og jafnvel þó þeir búi í bænum.

Hér er horft í átt til bæjarins af toppi Móskógahyrnu innst í Skútudal.

Nú þegar vorið nálgast, hlýna fer í veðri og von er til þess að leysingar auki vatnsmagnið í lækjum og ám, væri því ekki úr vegi að gera sér ferð þarna upp eftir á góðum degi og njóta þess sem nærumhverfið hefur upp á að bjóða.

Það þarf ekki endilega alltaf að leita svo langt yfir skammt.

Myndir og texti: Leó R. Ólason.

Söguseríuna “Poppað á Sigló” og fjölmargar fleiri skemmtilegar greinar eftir Leó R. Ólason má finna hér.