Í dag er föstudagurinn 13. september. Það að talan þrettán beri upp á föstudag gerist einu sinni til þrisvar sinnum á ári.
Margir trúa því staðfastlega að slíkur dagur sé sérstakur óhappadagur og kemur það til af því að margir tengja bæði föstudag og töluna þrettán við hrakfarir af ýmsu tagi.
Þannig er þrettánda hæðin í háhýsum oft ekki skilgreind sem slík, forðast er að sitja þrettán saman til borðs og til eru þeir sem neita að ganga í hjónaband á þessum degi og aðrir sem hreyfa sig ekki úr húsi þennan dag í öryggisskyni.
Samt er talan þrettán óalgeng í íslenskri þjóðtrú og er það fremur í seinni tíð sem Íslendingar hafa tekið upp á því að líta á þessa tölu ásamt með föstudegi sem óheillatákn.
Slæmur orðstír tölunnar þrettán á sér þó aldagamlar ástæður sem rekja má allt til Súmera frá því um 3000 f. Kr. þegar þeir lögðu grunn að þeirri talnaspeki sem síðan barst til hins germanska menningarsvæðis. Í sextugakerfinu er gengið út frá tölunni tólf en sé farið út fyrir hana fæst talan þrettán sem gerði hana um leið sérstaka en ekki endilega neikvæða.
Sömuleiðis er talið að þessi illa trú á tölunni eigi rætur í síðustu kvöldmáltíð Krists þar sem Júdas var sá þrettándi við borðið. Af sama meiði er sú trú sprottin að föstudagur sé óheilladagur þar sem Kristur var krossfestur á föstudegi.
Ýmislegt fleira hefur verið tínt til af þeim sem hafa illan bifur á tölunni þrettán og á föstudegi. Hins vegar eru til aðrir sem líta á þrettán sem hreina happatölu því hún sé sérstök og því til góðs en ekki ills og að föstudagurinn færi fólki mikla gæfu og auðæfi, sbr. þuluna um dagana:
Sunnudagur til sigurs,
Mánudagur til mæðu,
þriðjudagur til þrautar
Miðvikudagur til moldar,
Fimmtudagur til frama,
Föstudagur til fjár,
Laugardagur til lukku.
Gamalt nafn á föstudegi er frjádagur og felur í sér nafn ásynjanna Freyju eða Friggjar sem samsvarar rómversku ástargyðjunni Venusi enda heitir dagurinn dies veneris á latínu. Til forna var föstudagurinn dagur ásta og frjósemdar og álitinn hamingjudagur.
Við skulum því gefa allri illri hjátrú langt nef og vona að dagurinn í dag verð öllum sannkallaður happadagur.
Nú þegar líður að jólum er við hæfi að heimsækja Þjóðminjasafnið þar sem fræðast má um ýmislegt sem tengist íslenskum þjóðháttum og þjóðtrú.
Heimild: Þjóðminjasafn Íslands
Skjáskot: Wikipedia
Mynd: pixabay