Lögreglan á Norðurlandi eystra, fékk seinnipart þriðjudagsins 4. september sl. inn á borð til sín, frá árvökrum landvörðum Vatnajökulsþjóðgarðs, tilkynningu og skýrslu um utanvegaakstur fjögurra franskra ferðamanna á stórum torfæru-ferðamótorhjólum.
Landvörðum tókst að hafa hendur í hári þessara ökumanna, sem gengust við brotum sínum.
Um var að ræða landsspjöll á um 1,3 km. kafla meðfram vegi F910 frá Herðubreiðartöglum, suðaustur í átt að Upptyppingum, austan Öskju.
Djúp hjólför voru eftir mótorhjólin bæði í nánd við veginn og einnig fjær, þó ekki með samfelldum hætti.
Lögreglan á Húsavík vann úr gögnum málsins og var umræddum ökumönnum gert að gefa sig fram á lögreglustöðinni á Akureyri vegna málsins fimmtudaginn 6. september sl. þar sem hver og einn þeirra greiddi sekt, kr. 100 þúsund til ríkissjóðs, samtals kr. 400 þúsund.
Fram kemur í tilkynningunni að málinu sé lokið.