Kristján Þór Júlíusson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, Gunnar Þorgeirsson, formaður Bændasamtaka Íslands, og fulltrúar sveitarfélaga í Skagafirði hafa undirritað samkomulag við Kristínu Lindu Jónsdóttur, sálfræðing, um að veita sauðfjárbændum sálrænan stuðning og ráðgjöf vegna riðuveiki sem greinst hefur í Skagafirði. Kristín Linda er klínískur sálfræðingur og rekur eigin sálfræðistofu, Huglind ehf.

Í verkefninu felst að heimilisfólki á þeim búum þar sem riðuveiki hefur greinst stendur til boða að nýta sér sálfræðiþjónustu Kristínar Lindu. Ráðgjöfin verður í boði í Skagafirði þegar aðstæður leyfa eða í gegnum fjarfundarbúnað. Auk þess hafa bændur fengið sent fræðslu- og leiðbeiningarefni sem hefur verið tekið saman um áhrif af ytri áföllum á líðan fólks og hagnýt ráð sem hafa reynst vel þegar erfiðleikar og áföll ganga yfir. Sjónum er sérstaklega beint að viðbrögðum ef riðuveiki greinist í sauðfé. Í fræðsluefninu er auk þess vikið að bjargráðum foreldra vegna upplifunar barna og ungmenna. 

Þá mun Kristín Linda sækja opinn upplýsingafund sem fyrirhugað er að halda fljótlega þar sem hún mun taka þátt í umræðum og svara spurningum.