Nú standa yfir framkvæmdir við lagfæringu flugvallarins á Siglufirði. Trölli.is hafði samband við fulltrúa hjá Isavia, og í því samtali kom í ljós að Isavia er ráðgefandi aðili varðandi framkvæmdirnar, sem annars eru alfarið á vegum Fjallabyggðar.
Að mörgu er að hyggja til að hægt sé að opna flugvöllinn, alls kyns merkingar og staðlar sem þarf að uppfylla, en verkið er í fullum gangi og gengur vel. Verktakinn Árni Helgason í Ólafsfirði sér um framkvæmdir við lagfæringu brautarinnar og er gert ráð fyrir að malbikun klárist í næstu viku.
Mikilvægi flugvallarins er mikið, sérstaklega fyrir sjúkraflug. Einnig kemur hann til með að nýtast þyrluflugi sem sífellt er í mikilli sókn á svæðinu, ekki síst í skíðamennsku á veturna.
Það ætti því ekki að þurfa að byggja þyrlupall inn í miðjum bæ.
Frétt: Gunnar Smári Helgason
Myndir: Kristín Sigurjónsdóttir