FRÉTTATILKYNNING
Akureyri 20. september 2019
Heilbrigðisstofnun Norðurlands rekin með 126 milljón króna afgangi 2018. Rekstur á áætlun.

Úrbætur á húsnæði heilsugæslustöðvarinnar á Akureyri í vinnslu Þjónusta styrkt á fjölmörgum stöðum starfseminnar, m.a.: Hjúkrunarmóttökur efldar til að bæta þjónustu og létta á biðtíma eftir lækni Lífsstíls- og sykursýkismóttökur settar á laggirnar Aukin mönnun í heimahjúkrun Aukin mönnun í sálfélagslegri þjónustu Nýtt geðheilsuteymi stofnað Boðið verður upp á heilsueflandi heimsóknir til allra 80 ára og eldri

Ársfundur Heilbrigðisstofnunar Norðurlands (HSN) var haldinn í Hofi föstudaginn 20. september, 2019. Helstu niðurstöður rekstrarársins 2018 eru þær að stofnunin var rekin með 126 milljóna afgangi á árinu. Rekja má afganginn til sérstakrar aukafjárveitingar sem heilbrigðisstofnanir fengu á árinu 2018. Rekstur stofnunarinnar er fyrstu 8 mánuði ársins 2019 samkvæmt áætlun en stefnt er á að stofnunin verði rekinn með 30 milljóna halla á árinu 2019.

Jón Helgi Björnsson, forstjóri HSN:
“Það er vissulega ánægjulegt að sjá þennan árangur í rekstrinum, þrátt fyrir miklar áskoranir. Ég vil  þakka og hrósa starfsfólki HSN fyrir þeirra framlag sem hefur haft allt að segja. Fjölmörg brýn og fjárfrek verkefni eru fram undan hjá okkur. Eitt meginverkefna okkar þar eins og víðar í heilbrigðiskerfinu er að tryggja nægilega mönnun sem nauðsynlegt er til að veita fullnægjandi þjónustu. Þrátt fyrir að stofnunin sé vel mönnuð að flestu leyti hafa verið erfiðleikar við mönnun hjúkrunarfræðinga á einstaka stöðum. Þá vantar víða heimilislækna til starfa, en enginn fastur læknir er á Blönduósi og mönnun heimilislækna á Akureyri hefur verið ófullnægjandi sem valdið hefur of löngum biðtíma eftir lækni. Við höfum brugðist við þessu með því að styrkja hjúkrunarmóttöku hjá okkur, setja upp sérstakt verkjateymi og að ráða sjúkraþjálfara til starfa á stöðinni á Akureyri.”

Niðurstöður ársfundarins voru að auki:
Tekin hefur verið ákvörðun um að byggja nýtt hjúkrunarheimili á Húsavík sem verður til mikilla bóta fyrir aðstöðu þar. Unnið er að því að tryggja nýtt húsnæði undir heilsugæsluna á Akureyri. Stefnt er að því að leigja sérhæft húsnæði undir tvær heilsugæslustöðvar á Akureyri og flytja úr húsnæði heilsugæslunnar í Hafnarstræti. Stofnunin hefur styrkt þjónustu sína á fjölmörgum sviðum, svo sem í hjúkrunarmóttöku,  með uppsetningu lífsstíls- og sykursýkismóttökum, með aukinni mönnun í heimahjúkrun, og í sálfélagslegri þjónustu. Ákveðið er að boðið verði upp á heilsueflandi heimsóknir til einstaklinga sem náð hafa 80 ára aldri á öllu starfssvæðinu á árinu. Starfsemistölur sýna flestar aukna þjónustu stofnunarinnar við fólk á starfssvæðinu.Nýtt geðheilsuteymi sem starfa mun þvert á umdæmi einstakra heilsugæslustöðva hefur verið stofnað. Geðheilsuteymið er skilgreint sem 2. línu þjónusta innan geðheilbrigðiskerfisins þar sem hægt verður að veita lengri og sérhæfðari þjónustu en tök eru á í sjálfri heilsugæslunni. Þá er geðheilsuteymi HSN einnig ætlað hlutverk sem n.k. brú á milli HSN, geðdeildar Sjúkrahússins á Akureyri og félagsþjónustu sveitarfélaganna á starfssvæði HSN. Auk þess má gera ráð fyrir að samstarf verði við starfsendurhæfingarúrræði á svæðinu.