Nú er um eitt og hálft ár síðan frískápurinn við Amtsbókasafnið var opnaður og hann hefur svo sannarlega verið vel nýttur. Þar er alltaf eitthvað ókeypis á boðstólum og fólk vitjar skápsins alla daga og á öllum tímum sólarhringsins. Nýtt skýli hefur verið reist utan um frískápinn en það var smíðað af Nomaco með stuðningi frá umhverfis- og mannvirkjasviði Akureyrarbæjar.

“Það mega allir koma með mat í frískápinn, bæði fyrirtæki og einstaklingar,” segir Hrönn Soffíu Björgvinsdóttir starfsmaður á Amtsbókasafninu en safnið hefur haft veg og vanda af uppsetningu og viðhaldi frískápsins. “Það er í góðu lagi að koma með mat sem er kominn stutt fram yfir “best fyrir” dagsetninguna. Það er t.d. um að gera fyrir verslanir að koma með nýlega útrunnar vörur í stað þess að henda þeim. Hins vegar biðjum við fólk um að koma ekki með “neytist fyrir” vörur sem komnar eru fram yfir dagsetningu. Grunnreglan er alltaf sú að koma ekki með neitt sem þú myndir ekki vilja borða,” segir Hrönn og bætir við að afar sjaldan þurfi að henda einhverju úr skápnum og yfirleitt fari allt innan nokkurra klukkustunda.

Í raun er um tvo skápa að ræða: Annars vegar ísskáp og hins vegar þurrvöruskáp en í neðri hluta þurrvöruskápsins er líka hægt að skilja eftir eða taka með heim hrein ítlát fyrir matvæli, s.s. stórar krukkur og ísbox. Ef fólk kemur með eldaðan mat er gott að merkja ílátin með því sem er í þeim en blöð og pennar til að merkja með eiga að vera í skúffu í þurrvöruskápnum. Best er að hafa matinn ekki í of stórum einingum. Súpa í hálfslítra einingum fer fljótt en líklegt er að henda þurfi súpu í 10 lítra einingum þar sem slíkt er of mikið fyrir flest heimili. Einnig eru þau sem taka mat úr frískápnum minnt á að taka ekki meira en þörf er á svo fleiri fái að njóta.

Frískápurinn á Facebook.

Mynd/Akureyrarbær