Frönsk súkkulaðikaka með söltum hnetum og karamellusósu
- 150 g smjör
- 150 g suðusúkkulaði, hakkað
- 3 stór egg
- 3 dl sykur
- 1½ dl hveiti
- ½ dl kakó
Hitið ofninn í 175°. Klæðið form í stærðinni 20×20 cm með smjörpappír.
Bræðið smjör og súkkulaði saman í potti yfir lágum hita. Hrærið egg og sykur saman þar til blandan verður ljós og létt. Hrærið bræddu súkkulaðiblöndunni saman við eggjablönduna. Bætið hveiti og kakói út í og hrærið saman í slétt deig. Setjið deigið í bökunarformið og bakið í 22-25 mínútur. Kakan á að vera þétt í sér, þurrari í kanntinum og svigna í miðjunni.
Kakan er best ef hún fær að taka sig í nokkra tíma áður en hún er borin fram. Skerið hana í bita, stráið vel af söltum hnetum yfir og hellið karamellusósu yfir. Við höfðum þetta einfalt og notuðum tilbúnar karamellusósur sem við áttum í skápnum og höfum verið að nota út á ís og jafnvel laumað smáveigis af í kaffibollana þegar enginn sér. Karamellusósur gera jú flest allt aðeins betra.
Uppskrift: Ljúfmeti og lekkerheit