Drög að frumvarpi sem ætlað er að bæta stöðu örorku- og ellilífeyrisþega er nú til umsagnar í samráðsgátt stjórnvalda. Frumvarpið byggir á stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar þar sem segir meðal annars að ríkisstjórnin ætli að stöðva strax kjaragliðnun launa og lífeyris og stíga stór skref til að uppræta fátækt, auk þess að binda í lög að aldursviðbót á lífeyri öryrkja haldist ævilangt.
Í frumvarpsdrögunum eru þrjú meginatriði:
Miðað verði við hækkun launavísitölu
Örorku- og ellilífeyrisgreiðslur breytast árlega í samræmi við fjárlög. Hingað til hefur hækkunin tekið mið af launaþróun og verið samsett úr þróun fyrra árs og spá um efnahagshorfur fjárlagaársins.
Í frumvarpinu er hins vegar lagt til að árlegar breytingar á greiðslum almannatrygginga muni framvegis taka mið af hækkun launavísitölu. Lagt er til að samhliða verði tryggt að hækkunin verði aldrei minni en sú hækkun sem verður á verðlagi.
Þetta er gert til að stuðla að því að greiðslurnar fylgi betur almennri kjaraþróun á vinnumarkaði og tryggja að lífeyrisþegar dragist ekki aftur úr í kaupmætti. Hækkanirnar munu ná til allra þeirra sem fá greiðslur frá almannatryggingum.
Lagt til að ný aldursviðbót gildi til æviloka
Fyrir þau sem voru ung metin með örorku og hafa lítið eða ekkert getað tekið þátt á vinnumarkaði hefur 67 ára afmælisdagurinn slæm áhrif á stöðuna á bankabókinni. Þann dag fellur nefnilega svokölluð aldursviðbót á lífeyri öryrkja niður – og greiðslurnar lækka.
Í frumvarpinu er á hinn bóginn lagt til að ný aldursviðbót sem tekur gildi með breytingum sem verða á örorkulífeyriskerfinu í haust haldist ævilangt. Það þýðir að hún fellur ekki niður á 67 ára afmælisdaginn.
Rétt þjónusta á réttum tíma
Í frumvarpinu er einnig lagt til að þegar nýtt örorkulífeyriskerfi tekur gildi í haust fái Tryggingastofnun það verkefni að safna tölfræðiupplýsingum um framvindu meðferðar og endurhæfingar hjá einstaklingum.
Markmiðið er að sjá til þess að haldið sé utan um slíkar upplýsingar miðlægt þannig að þær nýtist til að tryggja að einstaklingar fái rétta endurhæfingarþjónustu, á réttum stað og réttum tíma.
Sæti við borðið
„Ég á von á að breytingarnar varðandi launavísitöluna muni loks binda enda á kjaragliðnun örorku- og ellilífeyris. Öryrkjar og aldraðir munu nú í fyrsta sinn fá ígildi þess að eiga sæti við kjaraborðið,“ segir Inga Sæland, félags- og húsnæðismálaráðherra.
„Með því að láta nýju aldursviðbótina gilda út ævina tökum við síðan sérstaklega utan um þau sem hafa frá unga aldri glímt við örorku og skert atvinnutækifæri – og tryggjum að þau fái áframhaldandi stuðning þegar þau færast af örorkulífeyri yfir á ellilífeyri. Þetta er hópur sem setið hefur eftir og ég vildi hlúa sérstaklega að.“
Mynd/aðsend