Á 255. fundi bæjarstjórnar Fjallabyggðar var m.a. tekin fyrir fundargerð skipulags- og umhverfisnefndar Fjallabyggðar frá 19. febrúar 2025.
Fá frest til til 15. maí til að skila inn tillögum að svörum varðandi fyrirhugaða Samkaupsbyggingu
Til máls á fundinum tóku þau Tómas Atli Einarsson, Arnar Þór Stefánsson, Guðjón M. Ólafsson, Helgi Jóhannsson og S.Guðrún Hauksdóttir til máls.
Bókun fundar.
Tómas Atli Einarsson lagði fram eftirfarandi bókun við afgreiðslu á lið 1. í fundargerðinni:
“Á fundi skipulags- og umhverfisnefndar þann 19.2 var samþykkt að leggja til við bæjarstjórn að T-ark yrði veittur frestur til 15. maí næstkomandi til að skila inn svörum við þeim athugasemdum sem bárust í umsagnarferlinu. Frestur T-ark til að koma sínum sjónarmiðum vegna framkominna athugasemda vegna tillögu að breytingu á deiliskipulagi hefði að öllu jöfnu verið átta vikur frá 2. janúar. Vert er hér að hafa í huga að sjónarmið þau er T-ark mun tefla fram eru innlegg í formleg svör bæjarstjórnar til þeirra sem sendu inn athugasemdir.
Eftir að hafa farið vel yfir það mál sem hér er til umræðu og þá stöðu sem uppi í samfélaginu hér í Fjallabyggð tel ég skynsamlegast að beina Samkaupum á aðra staðsetningu í bænum. Mitt mat er með öðrum orðum að best sé að deiliskipulagið sem samþykkt var árið 2017 skuli standa óbreytt og að hið svokallað fimm liða samkomulag skuli virt, sérstaklega hvað varðar fyrsta lið þess.
Það er mitt mat að sú sýn sem sjá má stað í samkomulaginu og uppbygging sem átti sér stað í kjölfar undirritunar þess hafi fært samfélaginu ómæld verðmæti svo sem uppbyggingu á einu glæsilegasta hóteli landsins og endurgerð á húsum sem voru í niðurníðslu. Þá er einnig er ljóst, að mínu mati, að fyrrgreind sýn sem lagt var upp með í samkomulaginu hefur aukið hróður bæjarfélagsins og aukið möguleika til atvinnusköpunar. Meðal annars þess vegna tel ég mikilvægt að núverandi deiliskipulag og framtíðarsýn verði látin halda sér.
Sveitarfélagið, og fulltrúar þess bera ábyrgð á að standa við og virða þau samkomulög sem gerð eru eins vel og mögulegt er út frá fjárhagsstöðu, og með hagsmuni sveitarfélagsins að leiðarljósi. Ég tel að áframhaldandi umræða og deilur um þetta mál séu ekki samfélaginu til góðs og leiði einungis til aukins ágreinings og átaka.
Ef bæjarstjórn ákveður engu að síður að halda áfram með þetta mál og samþykkja breytingu á deiliskipulagi frá árinu 2017 þá er ljóst í mínum huga að bæjarstjórn þarf að samþykkja sérstaklega að slíta því samkomulagi sem hefur verið leiðarljós bæjarstjórna frá undirritun þess árið 2012.
Með það að markmiði að T-ark gefist færi á að koma sjónarmiðum á framfæri áður en bæjarstjórn svarar þeim sem sendu inn athugasemdir geri ég það að tillögu minni að veittur verði frestur til 15. mars.”
Tómas Atli Einarsson óskaði eftir fundarhléi kl 18:06 og var gert hlé á fundinum til kl 18:34 og var þá aftur gengið til dagskrár.
Tillaga Tómasar Atla Einarssonar um að frestur verði veittur til 15. mars í stað 15. maí sbr. samþykkt skipulags – og umhverfisnefndar var felld með 6 atkvæðum gegn 1.
Liður 1 í fundargerðinni var staðfestur með 6 atkvæðum þeirra, S. Guðrúnar Hauksdóttur forseta bæjarstjórnar, Helga Jóhannssonar aðalfulltrúa, Guðjóns M. Ólafssonar 1. varaforseta, Sæbjargar Ágústsdóttur aðalfulltrúa, Þorgeirs Bjarnasonar aðalfulltrúa og Arnars Þórs Stefánssonar aðalfulltrúa.
Sjá umsagnir sem bárust í skipulagsgátt: HÉR