Á vef Fuglavinafélags Siglufjarðar birtist eftirfarandi grein á dögunum eftir Örlyg Kristfinnsson.
Þegar ekið er um Héðinsfjörð eða farin er stutt gönguferð við framanvert vatnið virðist ekki vera um fjölbreytilegt fuglalíf að ræða á staðnum. Slík skoðun á ekki síst við ef Héðinsfjörður er borinn saman við fjöldann og fjölbreytileikann í fuglalífi Siglufjarðar. En ekki er allt sem sýnist – því telja má yfir 30 tegundir þar á góðum degi. Undirritaður dvaldi í Héðinsfirði 17.-18. júlí og aftur 24. júlí og skráði eftirfarandi hjá sér:
Fyrst bar fyrir augu álftarpar með þrjá stálpaða unga úti á miðju vatni.
Ritur halda tíðum til nyrst á Héðinsfjarðarvatni og þykir eflaust gott að baða sig þar í ferskvatninu, 100 – 200 að tölu.
Himbrimi með sinn oddhvassa gogg varnar jafnan flestum öðrum fuglategundum aðgang að Héðinsfjarðarvatni – þar er hans einka búsvæði. Aðeins einu sinni mátti heyra hlakkið í himbrima á vatninu þessa daga en þrír fullorðnir voru saman á veiðum í sjónum við Víkurfjöru. Það er mjög þekkt að langdregið gól himbrima sé notað í amerískum kvikmyndum þegar þarf að ná fram dularfullum áhrifum (mystík). Í Héðinsfirði er það undarlegur hlátur hans sem berst tíðum yfir vatnið.
Tvisvar mátti heyra gogg-hljóðið í lómi sem flaug yfir Sandvelli.
Undan fjörunni við vestari Kleifa var fjöldi æðarfugls (uþb. 120) og nokkuð af hálfvöxnum ungum. Á sömu slóðum svömluðu allnokkrar toppendur.
Aðrar andategundir sáust ekki – en nýlegt skurn tveggja andareggja lá í götunni sunnan Hestskarðseyrar – mögulega stokkandaregg.
Úti við Kleifafjöru voru nokkrar teistur og einn dílaskarfur. Úti á firðinum svifu fýlar (múkkar) og þrjár tegundir svartfugla (auk teistunnar) stunduðu þar köfun; lundi, langvía og álka.
Á sandeyri við ósinn sjávarmegin sátu þrír svartbakar ásamt fimm silfurmáfum og slangri af ógreindum grámáfi. Hettumáfar létu sjá sig stutta stund.
Nokkuð var af kríu eða u.þ.b. fjörtíu og fáeinir ungar voru á sveimi.
Af vaðfuglum mátti telja fimmtán tjalda á vappi í þarabunkum, allmarga sendlinga laumast milli fjörusteina, um tuttugu stelka á sínu miðsumars-æfingaflugi, hnegg hrossagauks lá í loftinu og vellið í spóa var mjög áberandi yfir Sandvöllum allan tímann. Þá heyrðist í heiðlóu eitt andartak. Loks má nefna sandlóur – en af háttalagi þeirra sást að á tveimur stöðum á Víkursandi höfðu þær unga í felum.
Hrafn krunkaði hátt snemma morguns. Steindepill var með a.m.k. fjóra unga sína á fjörubeit og grátittlingur (þúfutittlingur) söng dátt í háloftunum. Skógarþrestir verpa í kjarrivöxnum fjallahlíðum beggja megin fjarðar og víða mátti heyra fjarlægan söng þeirra.
Þess má geta að kjói sést oft í Héðinsfirði og sólskríkja (snjótittlingur) er víða að finna til fjalla þó ekki hafi þá borið fyrir augu eða eyru að þessu sinni.
Og ekki verður lokið þessu fuglahringsóli um Héðinsfjörð án þess að nefna heiðagæsina. Að sögn Ólafs Guðmundssonar (Hafnargötu 16, Siglufirði) vissi hann af níu heiðagæsahreiðrum við Héðinsfjarðará, milli þjóðvegar og vatnsins, í vor. Hann hefur vissu fyrir því að þær hafi leitt út unga og þeir fuglar séu væntanlega á beit til fjalla.
Guðmundur Pálsson og Rósa Eiríksdóttir eru meðal margra landeigenda í Héðinsfirði. Þau dvelja tíðum í veiðihúsi á Sandvöllum og fylgjast vel með fuglalífinu. Rósa bætir við fyrrgreindar athuganir:
„Fyrst ber að geta kríunnar en nokkuð meira var af henni í sumar miðað við síðustu ár. Hún virðist hafa ágætan aðgang að sílum og seiðum því hún sést oft með þau í gogginum. Töluvert hefur verið um tjald í fjörunni í sumar og stelkurinn nikkar oft kolli til manns. Maríuerla verpir á hverju sumri hjá okkur upp undir þakveröndinni. Jaðrakan er líka útfrá og hefur verið með hreiður á hólnum við veiðihúsið. Óðinshanar eru í Héðinsfirði, eru litlir og skemmtilegir. Voru með hreiður syðst rétt hjá þar sem við erum með bátana í fyrra sumar. Voru oft rétt hjá okkur við vatnsborðið eins og þeir væru ekki miklar mannafælur. Músarindill hefur verið útfrá þó ég hafi ekki orðið hans vör í sumar. Hef fundið eitt hreiður hans fyrir nokkrum árum rétt við veiðihúsið. Það var í annað sinn af tveimur á ævinni sem ég finn þvílíka perlu.“
Örlygur Kristfinnsson
Forsíðumynd/Sigurður Ægisson
Sandlóa / Common Ringed Plover / Charadrius hiaticula