Lesandi sendi Trölla fáein orð og bað um að vakin sé aftur athygli á auglýsingu Fjallabyggðar um tillitssemi við varp villtra fugla.
Hann skrifar:
Í auglýsingunni segir að á Siglufirði sé það svæðið í kringum Leirurnar, Langeyrartjörn og á tanganum við Innri höfn sem sérstaklega þurfi að taka tillit til. Þar er flugvallarsvæðið ekki nefnt sérstaklega en á korti sem fylgir auglýsingunni kemur skýrt fram að það svæði sé meðtalið. Þar er mikið fuglalíf og ætla má að nærri 20 tegundir verpi þar, sumar sjaldgæfar.
Þess má einnig geta að (mennskir) einstaklingar hafa ákveðin varpsvæði á leigu frá bænum og eiga því nokkurra hagsmuna að gæta í umhirðu og umönnun.
Hundaeigendur eru vinsamlegast hvattir til að virða tilmælin frá bænum og sýna fuglum tillitssemi. (Skútudalurinn bíður!) https://www.fjallabyggd.is/is/frettir/fuglavarp