Í ævintýrum kemur stundum fram að töfrastaður og stund sé “fyrir austan sól og sunnan mána”. Nú vill svo skemmtilega til að slík töfrastund mun bjóðast í Reykjavík 10. ágúst 2023 um kl. 20.

Við miðum áttirnar við staðinn þar sem við stöndum, en þá þýðir “fyrir austan sól og sunnan mána” að sólin sé í vestur og tunglið sjáist í norður. Í flestum löndum á norðurhveli jarðar er tunglið alltaf sest þegar það er í hánorður, og telja má líklegt að þess vegna hafi ævintýrastaðurinn þessa undarlegu eiginleika. Fyrir norðan 61°N má þó stundum sjá tunglið á lofti allan sólarhringinn og þar á meðal í hánorðri. Þetta á við um allt Ísland.

Á 18-19 ára fresti er gangur tunglsins þannig að á mánaðarfresti er tunglið yfir sjónbaug (á lofti) allan sólarhringinn og tveim vikum síðar er tunglið undir sjónbaug allan sólarhringinn. Nú erum við í slíku tímabili, en frá september 2021 til apríl 2028 er tunglið á lofti allan sólarhringinn á mánaðarfresti. Svo gerum við kröfu um að sólin sé í vestur á sama tíma og tunglið er í norður og við gerum kröfu um að bæði séu á lofti á slíkri stundu. Fækkar þá nothæfum töfrastundum allnokkuð.

Í Reykjavík komumst við næst þessu á þessu ári fimmtudaginn 10. ágúst 2023, en þá er sólin í Reykjavík beint í vestur kl. 19:02, 17.3° yfir sjónbaug. Þá er tunglið hins vegar 28° vestan við norður, 3.1° yfir sjónbaug. Klukkan 21:12 er tunglið komið í hánorður, 0.3° yfir sjónbaug, en þá er sólin komin 28° norður fyrir vestur, 3.9° yfir sjónbaug. E.t.v. má jafna þetta út og finna nothæfa töfrastund sumarsins 2023 um kl. 20:07, en þá er sólin 14° norðan við vestur, 10.3° yfir sjónbaug og tunglið 14° vestan við norður, 1.0° yfir sjónbaug.

Við skoðun áranna 2021-2028 kemur í ljós að nálægt slíkum ævintýralegum töfrastundum komumst við u.þ.b. einu sinni á ári, 17. sept. 2022, 10. ágúst 2023, 26. ágúst 2024, 14. sept. 2025, 4. sept. 2026, 25. ágúst 2027 og 23. sept. 2027. Eftir þetta skeið þarf síðan að bíða til september 2041 eftir að fá að standa í Reykjavík fyrir austan sól og sunnan mána.

Skoða má sólar- og tunglgang á

http://brunnur.vedur.is/athuganir/sol/

Heimild/Veðurstofa Íslands