Fyrirkomulag rjúpnaveiða í eignarlöndum Húnaþings vestra verður með eftirfarandi hætti haustið 2022:
Veiðimönnum með gilt veiðikort útgefið af Veiðistjórnunarsviði Umhverfisstofnunar stendur til boða að kaupa sérstakt veiðileyfi útgefið af Húnaþingi vestra er veitir þeim einum heimild til rjúpnaveiða í eignarlöndum sveitarfélagsins. Kort af svæðunum má sjá á heimasíðu Húnaþings vestra www.hunathing.is
Rjúpnasvæði í landi Húnaþings vestra má sjá HÉR:
Svæði 1 – Eignarhlutur Húnaþings vestra í Víðidalstunguheiði sem er vesturhluti Víðidalstunguheiðar, lönd Stóra Hvarfs, Stóru Hlíðar og Öxnartungu. Sjá kort HÉR.
Svæði 2 – Eignarhlutur Húnaþings vestra í Arnarvatnsheiði og Tvídægru: Núpsheiði, Aðalbólsheiði, Lækjarbæjar, Fosskot og Þverá. Sjá kort HÉR.
Svæði 3 – Gafl og Lækjarkot. Sjá kort HÉR.
Hvert veiðileyfi sem selt er gildir á veiðitíma rjúpu sem umhverfisráðuneytið hefur gefið út vegna ársins 2022 og veitir einungis skráðum handhafa þess heimild til veiða á umræddu svæði á áðurnefndum tíma. Um er að ræða sölu á dagsleyfum. Sjá nánar fyrirkomulag UST HÉR.
Veiðileyfin verða til sölu hjá Hallfríði Ósk Ólafsdóttur á tölvupóstfangi hallfridur78@gmail.com. Athygli er vakin á að eingöngu verður tekið á móti pöntunum á viðkomandi netfang en ekki í gegnum síma. Verð fyrir hvert leyfi er kr. 9.500 á dag.
Fjöldi veiðimanna á veiðisvæði 1 er takmarkaður við 4 byssur á dag en 5 byssur á svæði 2 og tekið skal fram að leyfishafar hafa einir heimild til veiða á umræddum svæðum. Veiðimenn eru hvattir til að tilkynna veiðar án leyfis til eftirlitsmanns.
Fjallskiladeildir í Húnaþingi vestra hafa heimild til að loka vegum og vegslóðum sem eru á forræði sveitarfélagsins án fyrirvara ef talið er að þeir liggi undir skemmdum vegna tíðarfars og umferðar. Þannig veitir veiðileyfið ekki tryggingu fyrir því að ávallt sé hægt að aka að veiðisvæði.
Þess er vænst að veiðimenn virði það fyrirkomulag sem hér er kynnt og viðurkenni að það sé sanngjarnt og eðlilegt að greiða hóflegt gjald fyrir aðgang að takmörkuðum gæðum eins og rjúpnaveiði. Veiðimenn eru hvattir til að kynna sér veðurspá vel og tryggja að einhver viti um ferðir þeirra.
Mynd/ pixabay.com