Í gær, mánudaginn 24. febrúar var fyrsta grásleppu löndun vertíðarinnar á Kópaskeri.
Það var Helga Sæm ÞH-70 sem kom með 892 kg. af grásleppu til löndunar.
Þar sem grásleppan er kvótasett má byrja að veiða þegar hverjum hentar og eru margir að gera sig klára fyrir vertíðina, enda mikil verðmæti í húfi.
Grásleppan var kvótasett á síðasta ári og verður í ár fyrsta árið sem veiðar verða stundaðar á grundvelli aflahlutdeildar. Samhliða lagabreytingunni sem fól í sér kvótasetningu tegundarinnar var ákveðið að sá hluti kvótans sem hefðbundið fellur í hlut ríkisins og er ætlað að úthluta sem byggða- og atvinnukvóta, s.s. 5,3% grásleppukvótans mun verða ráðstafað sem sérstökum nýliðakvóta.
Nýliði telst í reglugerð sá sem á skip en hefur ekki skráða aflahlutdeild og hefur ekki fengið úthlutað aflahlutdeild eða átti rétt á aflahlutdeild í grásleppu vegna fiskveiðiársins 2024/2025.

Mynd/aðsend