Grænafl ehf. hefur í samstarfi við HS Orku sótt um leyfi til að setja upp hleðslustöð fyrir strandveiðibáta í smábátahöfninni á Siglufirði. Umsóknin hefur verið send til Hafnarstjórnar Fjallabyggðar, en verkefnið hefur hlotið styrk frá Orkusjóði.

Fyrirtækið Grænafl ehf. vinnur að orkuskiptum minni fiskiskipa, með áherslu á rafvæðingu strandveiðiflotans. Heimahöfn félagsins er á Siglufirði, þar sem ríkir öflug strandveiðimenning og aðstæður eru til staðar til þróunar á slíkum innviðum.

Um er að ræða fyrstu hleðslustöð sinnar tegundar fyrir smábáta á Íslandi. Hleðslustöðin verður með tveimur tengjum og hámarki allt að 700 kW, og mun verða staðsett á bryggjukanti smábátahafnarinnar. Rafmagn verður leitt frá spennistöð RARIK við Snorragötu 4A, í gegnum afriðil (hub) sem umbreytir straumnum í jafnstraum (e. DC) fyrir hleðslustöðina. Afriðillinn verður staðsettur í suðvesturhorni hafnarinnar til að tryggja nálægð við spennistöðina og lágmarka truflun á umferð um svæðið.

Framtíðaruppbygging felur í sér möguleika á frekari hleðslustöðvum við sama afriðil. Stærð afriðilsins er 200x170x90 cm (hxbxd) með um eins metra vinnusvæði í kring, og stærð hleðslustöðvar er 227x59x32 cm.

Nákvæm staðsetning hleðslustöðvarinnar verður ákveðin í samráði við Rarik, HS Orku og Fjallabyggð, með það að markmiði að aðstaðan verði notendavæn og hleðslustöðin ekki til fyrirstöðu fyrir umferð um bryggjusvæðið.

Umsóknin var tekin fyrir á fundi skipulags- og umhverfisnefndar Fjallabyggðar. Formaður vék af fundi við afgreiðslu málsins. Nefndin samþykkti erindið fyrir sitt leyti og vísaði því til kynningar hjá framkvæmda-, hafna- og veitunefnd.

Yfirlitsmynd af svæðinu.

Myndir/Skjáskot úr fylgiskjali