Fimmtudaginn 29. maí var tekin fyrsta skóflustungan að nýjum leikskóla í Varmahlíð. Kom það í hlut Ísaks Frosta, nemanda í leikskólanum Birkilundi, að taka fyrstu skóflustunguna með dyggri aðstoð Steinunnar Arnljótsdóttur leikskólastjóra Birkilundar. Einar Einarsson formaður byggðarráðs og Kristófer Már Maronsson formaður fræðslunefndar ávörpuðu samkomuna.
Nýi leikskólinn verður 550 fermetrar að stærð og mun hann rúma 65 börn. Í kjölfar fyrstu skóflustungunnar hófust framkvæmdir og er áætlað að leikskólinn verði tekinn í notkun um haustið 2025. Fyrsti áfangi er snýr að ytrabyrði og að reisa húsið er í höndum Uppsteypu ehf. en stefnt er á að bjóða út frágang innandyra á haustmánuðum.
Nýi leikskólinn verður staðsettur við hlið Varmahlíðaskóla og miðast öll hönnun byggingarinnar við að skólann verði hægt að stækka í komandi framtíð, en einnig mun tenging hans við húsnæði Varmahlíðarskóla bjóða upp á margvíslega samvinnu þessara tveggja skólastiga á komandi árum.
Í ræðu Einars Einarssonar, formanns byggðarráðs, kom hann inn á sögu leikskólastarfsins í Varmahlíð en fyrsti leikskólinn tók til starfa 27. september árið 1982 fyrir tilstuðlan foreldra í héraðinu. Í niðurlagi á ræðu sinni sagði hann ”Það er einlæg von mín að þessi bygging sem áætlað er að verði fullbúin haustið 2025 eigi eftir að reynast vel og stuðla að áframhaldandi uppbyggingu í Skagafirði.“
Kristófer Már Maronsson, formaður fræðslunefndar, óskaði tilvonandi nemendum, starfsfólki, foreldrum og íbúum innilega til hamingju með áfangann jafnframt sem hann þakkaði öllum þeim sem komu að verkefninu á einn eða annan þátt. Í ræðu sinni sagði Kristófer: „Ég trúi því að hér sé verið að stíga skref í rétta átt varðandi bætts starfsumhverfis bæði barna og starfsfólks sem mun tryggja enn frekar gott og öflugt starf í leikskólunum okkar“.
Myndband af athöfninni má sjá hér:
Mynd/Sveitarfélagið Skagafjörður