Ég ákvað að bregða mér til ÓIafsfjarðar að sjá sýninguna Bjargráð eftir Guðmund Ólafsson, leikara, leikstjóra og rithöfund. Það var Leikfélag Fjallabyggðar sem stóð að uppsetningunni en það er sameinað leikfélag Siglufjarðar og Ólafsfjarðar. Sýningin fór fram í Tjarnarborg, því veglega félagsheimili Fjallabyggðar.
Það er skemmst frá því að segja að ég skemmti mér alveg konunglega á þessari leiksýningu. Um er að ræða verk sem leikstjórinn skrifaði ofan í leikhópinn og mætti segja að um einskonar revíu sé að ræða, þar sem fjölmörg sönglög úr smiðju Abba koma við sögu. Umfjöllunarefnið er dauðvona smábær þar sem bæjarstjórnin er orðin uppiskroppa með bjargráð til að koma í veg fyrir gjaldþrot. Þegar öll sund virðast lokuð þá berst bæjarfélaginu upp í hendur Evrópustyrkur sem gæti bjargað málum en það bráðvantar góðar hugmyndir til að geta nýtt styrkinn í ábatasöm verkefni.
Yfrið nóg er af slæmum hugmyndum frá hinum ýmsu bæjarbúum en engin þeirra hlýtur náð fyrir augum bæjarstjórans. Skyndilega og úr óvæntri átt mætir Vestur-Íslendingur með langsóttar rætur fram í eyðidal í nágrenni við bæinn á fund bæjarstjórans með nýstárlegar hugmyndir um hvernig hægt sé að laða ferðamenn til bæjarins og auka þannig veg og virðingu hans. Að ekki sé talað um hagvöxtinn sem sjálfkrafa fylgir í kjölfarið.
Ég vissi ekki hverju ég átti von á til að byrja með og þegar forleikur hljómsveitarinnar hófst þá fór um mig efasemdarstraumur um að leikararnir myndu varla ná að drífa yfir þann kraftmikla hljóm sem fyllti salinn í Tjarnarborg. En þegar tjaldið dróst frá og leikararnir birtust á sviðinu þá fylltist ég eftirvæntingu á ný. Um það bil þrjátíu manns stóðu á sviðinu og þegar fyrsti söngurinn brast á þá var samhljómur góður á milli vel spilandi hljómsveitar og leikaranna á sviðinu.
Textinn komst vel til skila og það má segja að ég hafi heyrt og skilið hvert einasta orð af þeim söngtextum sem höfundur hefur smíðað svo haganlega við Abba-lögin. Kaldhæðnislegt grínið og staðbundnir brandararnir féllu í kramið hjá áhorfendum og ekki annað hægt en að hrífast með. Sum atriðin voru afar fyndin og skemmtilega útfærð af hálfu leikstjórans og leikhópurinn stóð sig allur með stakri prýði.
Mig langar einkum að nefna þrjá leikara af eldri kynslóðinni sem fóru með hlutverk gamalmenna (ef það er í lagi að nota það orð í dag) og gerðu þeirri klisju ákaflega góð skil. Það mátti skynja bros og niðurbælda hlátra í hvert skipti sem þeir birtust á sviðinu. Leiktextinn var blátt áfram og í stíl klassískra gamanleikja með tilvísun í líðandi stund. Það vakti mikla innri kátínu hjá mér hve höfundur fór fínlega í að draga dár að útrýmingu þess karllæga í tungumálinu; en hvergi var hægt að koma auga á eða skynja háðsádeilu sem var særandi eða meiðandi á nokkurn hátt þótt stundum væri fast skotið. Allt svona pent, fágað og fyndið.
Þeir leikarar sem fóru með burðarhlutverkin voru allir vanda sínum vaxnir (vaxin?) og til marks um skemmtanagildið þá var standandi lófaklapp í lokin án efa hvatning fyrir alla að halda áfram að sýna á meðan fólkvill koma til að sjá, heyra og upplifa.
Bjargráð er ósvikin, vönduð og heimalöguð skemmtun fyrir alla. (Öll!)
Valgeir Skagfjörð