Þessi ótrúlega vel geymda náttúruperla er svo vel geymd að það er með miklum ólíkindum hve fáir vita af henni.
Þessi foss heitir Gálgafoss og er í Fjarðará sem við Siglfirðingar köllum alla jafna Hólsá af gömlum og góðum vana.
Mér finnst nefnilega alltaf mjög skrýtið að sjá hana merkta sem Fjarðará á skiltinu við brúna. Mig langar þá einna mest til að verða mér úti um skiptilykil í einum grænum, skrúfa það af og setja Hólsá í staðinn, en það er nú annað mál.
Á hinum frábæra vef snokur.is er bent á að fyrir einhverjum öldum síðan mun áin hafa heitið Siglufjarðará og Hólsdalur Siglufjarðardalur sem kemur mörgum nútímasiglfirðingnum eflaust spánskt fyrir sjónir.
Það gæti verið allt að því klukkutíma gangur upp af stíflunni sem er inni í Hólsdalnum.
Ég var lengi búinn að vera á leiðinni upp að þessum fossi til að skoða hann svolítið í nærmynd og lét á endanum verða af því fyrir 10 árum síðan.
Neðsti hluti hans sem er í hvarfi bæði frá bænum og neðri hluta Hólsdalsins, sést ekki fyrr en komið er alveg upp að honum og virðist hann því vera mun lægri tilsýndar en hann er í raun og veru.
Á hæðina er hann nefnilega á við þriggja hæða hús eða nánast helmingi hærri en Leyningsfoss sem er krúnudjásn Skógræktarinnar og hinn myndarlegasti í alla staði. Ekki spillti það fyrir þegar ég átti þarna leið um, að áin var óvenju vatnsmikil í síðbúnum vorleysingunum.
Hins vegar veit ég ekki af hvaða atburðum nafnið er dregið, en líklega eru þeir löngu gleymdir og ekkert finnst skráð um þá.
Efri myndin er tekin af austurbakkanum en sú neðri af hinum vestari.
Báðar flottar þó ólíkar séu, ekki satt?
Myndir og texti: Leó R. Ólason.