Tónlistarmanninn Lýð Ægisson þarf vart að kynna fyrir lesendum þessa miðils en hann var fæddur á Siglufirði þann 3. Júlí 1948, sonur hjónanna Ægis Jónssonar og Þóru Frímansdóttur.

Lýður flutti ungur til Vestmannaeyja til að stunda sjómennsku og kláraði hann m.a. stýrimannaskólann þar árið 1970 og starfaði sem skipstjóri þar til ferlinum lauk árið 1992.

Lýður hafði verið talsvert mikið í tónlistarsköpun frá unga aldri, sjálflærður á hin ýmsu hljóðfæri og yrkti ljóð og texta. Árið 1985 kom út platan Ljósbrot en þar átti Lýður öll lögin sem og einn texta. Þá næst árið 1987 gaf Lýður út Lóminn LÆ Vís en þar átti hann öll lög og texta, undanskilið laginu Geislabrosið sem er eftir Selmu Hrönn Maríudóttir og er sungið af Ruth Reginalds sem er systur dóttir Lýðs.

Árið 1989 kom út platan Logadans, en þar átti sonur Lýðs, Þorsteinn, eitt lag sem og þáverandi eiginkona Lýðs, Rannveig, einn texta. Restina átti Lýður sjálfur. Þá næst kom platan Lífið í lit þar sem Lýður átti öll lög og texta.

Síðasta plata Lýðs kom svo árið 2009 en þar átti hann öll lög og texta.

Fyrsta plata Lýðs, Ljósbrot seldist í 1500 eintökum og allar plötu sem á eftir komu fóru í platinum sölu sem er yfir 5000 eintök. Síðasta plata hans seldist í tæplega 10.000 eintökum sem verður að teljast ótrúlegur árangur. Samtals voru seld rúmlega 30.000 eintök af þessum plötum.

Þess má einnig geta að Lýður gerði alla texta á plötu sonar síns, Þorsteins, árið 2010 sem seldist í c.a. 2500 eintökum.

Þrátt fyrir þessar útgáfur þá liggja enn eftir rúmlega 200 lög og textar sem Lýður náði ekki að gefa út um lífsleiðina.

Síðustu vikur hafa börn hans verið að vinna í að koma þessari útgefnu tónlist á streymismiðla og nýverið kom platan Logadans á Spotify. Fósturdóttir Lýðs, Selma Hrönn Maríudóttir, sá um að endur master-a plötuna fyrir betri hljómgæði og afraksturinn leynir sér ekki og er nú hægt að nálgast þessa plötu Lýðs í heild sinni á Spotify miðlinum.

Myndir/aðsendar