Líftæknifyrirtækið Genís hf. hefur tryggt sér 1,1 milljarð króna í nýtt hlutafé til áframhaldandi þróunar á beinígræðum og lyfjum við bólgusjúkdómum.
Siglufjörður, Ísland – 24. júní 2024 – Íslenska líftæknifyrirtækið Genís hf. sem hefur um tveggja áratuga skeið unnið að rannsóknum og þróun á lífvirkum kítínfásykrum til notkunar í fæðubótarefnum, lyfjum og við beinígræðslu hefur lokið fjármögnun sem felur í sér hlutafjáraukningu að fjárhæð 1,1 milljarð króna.
Að hlutafjáraukningunni komu bæði núverandi hluthafar og nýir fjárfestar. Á aðalfundi félagsins þann 20. júní sl. tók Baldvin Björn Haraldsson sæti í stjórn. Auk hans í stjórn sitja Róbert Guðfinnsson, formaður stjórnar, Gunnhildur Róbertsdóttir, Sigþór Sigmarsson og Tómas Már Sigurðsson.
Fjármögnuninni er fyrst og fremst ætlað að styðja við áframhaldandi klínískar rannsóknir og þróun lyfja og lækningatækja, einkum á sviði beinendurnýjunar þar sem byggt er á endurnýjunar-, beinvirkni-, og bakteríudrepandi eiginleikum kítínafleiða.
Róbert Guðfinnsson stofnandi og stjórnarformaður Genís:
“Trú núverandi hluthafa og nýrra reynslumikilla fjárfesta í nýafstaðinni hlutafjáraukningu endurspeglar þann árangur sem Genís hefur náð að undanförnu. Félagið stendur styrkum fótum og krafturinn og metnaðurinn í okkar framúrskarandi starfsfólki gefur tilefni til mikillar bjartsýni.”
Um Genís:
Genís er leiðandi íslenskt líftæknifyrirtæki sem sérhæfir sig í vöruþróun og framleiðslu á kítínafurðum. Fyrirtækið var stofnað árið 2005 og eru höfuðstöðvar og framleiðsla þess á Siglufirði. Árið 2016 setti Genís á markað Benecta®, leiðandi fæðubótarefni á íslenskum markaði. Árið 2021 kom fæðubótarefni fyrir hunda, Agil Senior®, á markað í Þýskalandi í samstarfi við WDT, efnahagssamvinnufélag þýskra dýralækna, og er það nú einnig fáanlegt á Íslandi undir vörumerkinu Second Half Plus®.