Þuríður Harpa Sigurðardóttir formaður ÖBÍ fjallar um nýgerða kjarasamninga á almennum vinnumarkaði og hver næstu skref eiga að vera:
“Ég ætla að leyfa mér að vera bjartsýn. Stjórnvöld hljóta að vera búin að hugsa hvernig þau geti bætt kjör fólks sem veikist og slasast / öryrkja. Þau hljóta að ætla sér að bæta kjör lífeyrisþega.
Það er ekki spurning í mínum huga að ég hlýt að treysta stjórnvöldum til góðra verka, þess vegna voru þau kosin, þess vegna eru þau valdhafar. Ég treysti því að þau leiðrétti strípaðan örorkulífeyrir sem í dag er um 248.000 kr. fyrir skatt – sem 70% öryrkja verða að framfleyta sér á.
Ég treysti því að stjórnvöld ætli sér í raun að hækka örorkulífeyrir í takt við það sem lágmarkslaun eru, það er sanngjörn krafa svo ekki sér meira sagt. Ég treysti því að samfélagið, hver persóna skoði sinn hug. Ef þú veikist, ef þú slasast og getur ekki lengur unnið fullan vinnudag, getur jafnvel ekkert unnið, gætir þú framfleytt þér á 248.000 kr. fyrir skatt eða lægri upphæð?
Mitt svar er einfalt NEI!
Hver getur borgað af húsnæði, borgað mat, og fatnað og jafnvel framfærslu barns á þessum lífeyri? Fátækt er ljót staðreynd í okkar samfélagi. Eina leiðin til að börn fatlaðs fólks geti átt sömu tækifæri og börn annarra er að örorkulífeyrir verði hækkaður. Enginn er óhultur allir geta veikst, allir geta slasast! Hvað þá?
Vilt þú ekki geta framfleytt þér ef þú veikist eða slasast? Veist þú hvað þú átt í lífeyrisréttindum? Veist þú að lífeyrir þinn skerðir/lækkar örorkulífeyrir um sömu upphæð? Almannatryggingakerfinu okkar var komið á til að einmitt einstaklingur eins og þú, hefðir fjárhagslegt skjól ef þú veiktist eða slasaðist og gætir ekki lengur unnið. Myndu 248.000 kr. fyrir skatt duga þér?”
Mynd: ÖBÍ