Hér lítur dagsins ljós glæný breiðskífa – TROUBLE IN MIND – frá bílskúrs-dúettinum GG BLÚS og er það önnur plata þeirra félaga, frá því að frumraunin – PUNCH – kom út árið 2019.

Lög af plötunni eru komin í spilun á FM Trölla.

GUÐMUNDUR JÓNSSON gítar/söngur og GUÐMUNDUR GUNNLAUGSSON trommur/söngur eru þar enn fyrir á fleti og hafa verið iðnir við kolann síðastu misseri, unnið ötullega að plötugerðina og leggja hér allt í sölurnar – því giggin þau koma og fara en útgáfan situr eftir.

Trouble In Mind á Spotify

GG Blús á Youtube

GG Blús á Facebook

Segja má að nýja platan TROUBLE IN MIND sé systurplata PUNCH enda svipuð að upplagi, þ.e.a.s. sjö frumsamin lög í bland við þrjár sígrænar ábreiður í óvenjulegum útsetningum, þar sem óbeislaður frumkraftur blús-rokksins fær að njóta sín, en þú veist samt aldrei hvað bíður þín handan hornsins.

Svo til að æra óstöðugan, þá skartar gripurinn líka góðum gestum, þremur frábærum tónlistarkonum sem leggja hér gjörva hönd á plóg og færa verkið upp á annan og hærri stall með listfengi sínu og nærveru. Þetta eru þær BRYNDÍS ÁSMUNDSDÓTTIR, söngkona, BRYNHILDUR ODDSDÓTTIR, gítarleikari og UNNUR BIRNA BJÖRNSDÓTTIR, fiðluleikari.

TROUBLE IN MIND er komin á Spotify og helstu streymisveitur alnetsins og væntanleg í plötubúðir. Rúsínan í pylsuendanum verða síðan útgáfutónleikar GG BLÚS ásamt gestum á BIRD, Naustum laugardagskvöldið, 10. maí n.k. – þar sem öllu verður tjaldað til og platan flutt í heild sinni ásamt völdum gullmolum úr lagakistu dúettsins.


Aðsent