Hin fornfræga unglingasveit Synir Raspútíns færir íslensku þjóðinni – og öllum sem óska þess að tilheyra henni – gjöf í tilefni af 80 ára afmæli lýðveldisins. Þar er á ferð hljómplatan Of lítið, of seint sem kom út á þjóðhátíðardeginum sjálfum, 17. júní.
Synir Raspútíns eru ýmsum ekki óþekktir, sérstaklega þeim sem voru á sínum sokkabandsárum á síðasta áratugi síðustu aldar. Sveitin var þekkt fyrir þétta spilamennsku, líflega sviðsframkomu og sérstakan hljóðheim þar sem raddanirnar og kassagítarleikurinn skoruðu þungan trommusláttinn, bassadrunurnar og rafmagnsgítarinn á hólm svo úr varð melódísk kakófónía þar sem skipulagt kaos réði för.
Synir Raspútíns rötuðu aldrei á plötu á sínum tíma, en eftir að nokkurra ára gamlar upptökur af einhverjum laga hljómseitarinnar komust í hendur færustu hljóðblandara þessa lands var ákveðið að gefa herlegheitin út. Þar með fengu hinir miðaldra synir, sem sjálfir eru orðnir feður, færi á því að gefa unglingunum sem þeir eitt sinn voru hljómplötu og þjóðinni allri um leið. Til hamingju, öll.
Synir Raspútíns eru Birgir Jónsson trommuleikari, Hafþór Ragnarsson söngvari, Kolbeinn Óttarsson Proppé kassagítarleikari, Kristinn Schram söngvari, Ólafur Þór Kristjánsson bassaleikari og Valur Bogi Einarsson rafmagnsgítarleikari.
Platan Of lítið, of seint inniheldur lögin Boðorðin, Svartur engill, Fjötrar, Mannsvísur, Skil, Ástin sigrar, I´ll have to say I love you in a song.
Aðsent