Á aðfaranótt mánudags gekk kolvitlaust veður yfir í Fljótum og töluvert tjón hlaust af.

Halldór Gunnar Hálfdansson bóndi á Molastöðum í Fljótum tók meðfylgjandi myndir af tjóni og birti eftirfarandi færslu á facebook síðu sinni og gaf hann Trölla.is góðfúslegt leifi til að birta hana.

“Það gekk einhvers konar gjörningaveður hér yfir s.l. nótt í mjög skamman tíma, ég hef sjaldan upplifað aðrar eins rokur eins og dundu hér yfir hálf fimm í nótt, strompurinn rifnaði af fjárhúsunum, hann var nú orðinn slappur, kerrurnar fuku af hlaðinu en það skrítnasta var, að heiti potturinn okkar, ellefti fjölskyldumeðlimurinn sogaðist upp úr festingum sínum, braut toppinn á trjánum við hliðina á honum (í þriggja metra hæð) og fauk síðan 300 metra út á túnið hjá nágrannanum á Bjarnargili.

Þar brotnuðu rúður í fjósinu og þak fauk af súrheysturni. Þetta var afar staðbundið óveður og sem betur fer hafa flestir íbúar Fljótanna sloppið betur.

P.s. svo fauk níðþung rúlla nokkra metra !!