Um síðustu helgi fór fram Í Frederikshavn í Danmörku stórmót í badmintoni, FBK Nordic Open. 340 keppendur tóku þátt í mótinu þar af 50 badmintonspilarar frá Íslandi. Af þeim voru 8 frá Tennis og Badmintonfélagi Siglufjarðar.

Keppnin fór fram á laugardeginum og sunnudeginum og á mánudeginum var ferðast heim með viðkomu í Legolandi í Billund.

Keppt var í mismunandi getustigum frá U11 til fullorðinsflokks og var yngsti keppandinn frá Íslandi 10 ára og sá elsti 26 ára. Allir keppendur fengu marga leiki sem er mikilvægt þegar farið er jafn langt á mót.

Hér fyrir neðan er farið yfir árangur TBS iðkenda:

Hrafnhildur Edda var þrefaldur meistari í U17/U19 A-flokki. Í einliðaleik voru fimm stelpur og sigraði hún alla sína fjóra leiki. Í tvíliðaleik spilaði hún með Kötlu Sól og í tvenndar með Stefáni Loga og í báðum greinum sigruðu þau úrslitaleikinn með góðri spilamennsku.

Sigurlaug Sara spilaði í U17/U19 B-flokki þar sem hún tapaði úrslitaleiknum í einliðaleik. Í tvíliðaleik spilaði hún með Elínu Helgu og í tvenndar með Jóni Víði og eftir hörkuleiki í báðum greinum náði þau ekki að komast upp úr riðlakeppninni.

Anton Elías, Steingrímur Árni og Tómas spiluðu í U15 C-flokki. Í einliðaleik voru þeir í hver sínum riðli þar sem allir spiluðu þrjá hörkuleiki. Steingrímur og Tómas sigruðu sína riðla en töpuðu undanúrslitaleikjunum og enduðu saman í 3.sæti. Í tvíliðaleik spilaði Steingrímur og Tómas saman og Anton spilaði með Tobias frá Noregi. Eftir nokkra spennandi og jafna leiki enduðu Steingrímur og Tómas með bronsið.

Sebastían Amor varð meistari í einliðaleik í U15 B-flokki eftir fimm hörkuleiki. Í tvíliðaleik spilaði hann með Erik Val í U15 B-flokki þar sem þeir töpuðu úrslitaleiknum. Í tvenndarleik spilaði hann með Tóru frá Færeyjum í U15 A-flokki þar sem þau töpuðu í 8-liða úrslitum.

Alda Máney spilaði einliðaleik í U13 C-flokki þar sem hún spilaði þrjá hörkuleiki í riðlinum en komst því miður ekki áfram. Í tvíliðaleik spilaði hún með Júlíu Marín frá Tindastól í U15 C-flokki þar sem þær spiluðu tvo flotta leiki í riðlinum en komust því miður ekki áfram. Í tvenndarleik spilaði hún með Marínó Erni í U13 B-flokki þar sem þau enduðu í 2.sæti.

Marínó Örn varð tvöfaldur meistari. Í einliðaleik sigraði hann alla sína fjóra leiki í U11 B-flokki (var ekki A-flokkur í þessum aldri) og í tvíliðaleik spilaði hann með Daniel frá Noregi í U13 C-flokki og sigruðu þeir alla sína leiki. Hann spilaði svo með Öldu Máney í tvenndarleik í U13 B-flokki þar sem þau enduðu í 2.sæti.

Frábær árangur hjá TBS iðkendum á flottu móti sem var spilað á 25 völlum.

Upplýsingar og mynd fengnar af síðu TBS.

Mynd: Keppendur TBS, Gerda þjálfari þeirra og aðstandendur sem fóru með á mótið/ Af vefsíðu UÍF
Heimild/Frétta- og fræðslusíða UÍF