Grasasnarnir urðu til í kringum upptökuverkefni. Eitt leiddi af öðru; ástríða fyrir tónlistinni og sköpuninni og skemmtilegur félagsskapur réði mestu um hvernig mál þróuðust. Platan: “Til í tuskið” varð til og kom út í lok árs 2012 sem CD. Segja má samt að hljómsveitin sjálf hafi ekki orðið til fyrr en að loknum upptökum. Menn fóru að koma reglulega saman, æfa og móta sér tónlistarstíl.

Grasasnar eru: Sigurþór Kristjánsson, trommur, söngur – Halldór Hólm Kristjánsson, bassi, söngur – Steinar Berg, söngur, kassagítar – Sigurður Bachmann, raf- og kassagítar.

Lagt var út í upptökur á nokkrum fleiri lögum og ramminn utan um tónlistarstefnuna endanlega mótaður. Mannabreytingar urðu og vegna mikilla anna hjá meðlimum var erfitt um vik að rækta spilagleðina og spila opinberlega. Ákveðið var samt að leggja í aðra plötu og hafa upptökur hennar nú staðið í hérumbil 4 ár.

Svo kviknaði sú hugmynd í byrjun 2019 að gefa “Til í tuskið” út á vínylplötu. Verk sem sannarlega endurspeglaði Grasasna eins og þeir eru. Segja má að upphaflega CD útgáfan hafi gert það að hluta en með því að bæta 4 nýjum lögum við 6 laganna af upphaflega geisladisknum verður til 10 laga heildstæð plata sem Grasasnar standa stoltir með og rammar inn þann tónlistarlega vettvang sem hljómsveitin hefur valið sér.

Þessi útgáfa kom út opinberlega á vínyl í annarri viku ágústmánaðar.
Hún er einnig aðgengileg á Spotify.

Af því nýja efni sem er á plötunni vonast Grasasnar eftir því að fá spilun í útvarpi á lögunum: Í Borgarfirði, The Fields of Athenry og Hæ, þú þarna. Kannski eiga einhver þeirra eftir að ná eyrum landsmanna!

Það reynist landsbyggðarhljómsveitum reyndar oft erfitt að koma sér á framfæri og aðstæður allar erfiðar. Grasasnar eru samt fullir vonar og staðráðnir í að standa á bak við eigin verk og hleypa lífi í og rækta sinn garð á næstu misserum.

Unnið er að því að klára nýja plötu sem er reyndar á lokametrunum. Þar er um að ræða heiðursplötu tileinkaða bandaríska söngsmiðnum John Prine.

Ýmsar vegtyllur og verðlaun hafa fallið til handa þessum merka listamanni að undanförnu s.s. að hann var tekinn inn í Songwrithers Hall of Fame á síðasta ári og svo mun hann fá heiðursverðlaun Grammy á sérstakri hátíð í apríl.

Grasasnar ætla sem sagt að heiðra hann með útgáfu á plötu þar sem lög hans verða flutt með íslenskum textum svo og á frummálinu, ensku. Áætlað er að setja út reglulega lag og lag í hverjum mánuði og hið fyrsta er Some Humans Aint Human eða “Sumt mannfólk er ómennskt”.

Viðtökurnar hafa verið framar björtustu vonum og mörg þúsund manns búnir að horfa á myndbandið og fjöldinn allur af jákvæðum og uppbyggilegum skilaboðum.

Facebook síða Grasasna.