Yfirvöld hafa tekið ákvörðun um að loka húsnæði Menntaskólans á Tröllaskaga sem og annarra framhaldsskóla og staðbundinni viðveru nemenda vegna covid-19 veirunnar.

Vegna þessa flytur MTR allt nám alfarið yfir á netið og verður haldið áfram með námið af fullum krafti.

Nú ríður á að aðstandendur sýni heimavinnu nemenda áhuga, spjalli við þau um það og haldi þeim að náminu. Það er erfitt að læra einn heima.

Með stuðningi í samfélaginu og á heimilunum tekst þeim að halda ótrauð áfram með námið og klára áfangann í vor.

Nemendur eiga að mæta til náms á netinu samkvæmt stundarskrá mánudaginn 16. mars. Engar breytingar verða hjá fjarnemum.

Kennslustundir
Nemendur mæta á réttum tíma í kennslustundir, kennarar eru með netstofur (sjá í Moodle) og taka mætingu. Kennt er samkvæmt stundaskrá.

Vinnutímar
Nemendur skrá sig inn og úr vinnutímum eins og venjulega. Búið er að taka út takmarkanir sem voru þar sem nemendur gátu bara skráð sig í vinnutíma í húsinu þannig að nú er hægt að skrá sig í og úr vinnutímum alls staðar frá.

Kennarar sem skráðir eru í vinnutímana eru með netstofur sínar opnar í sínum vinnutímum (sjá Moodle).

Mætingar
Enginn afsláttur er gerður á mætingum, nemendur mæta á neti.

Verkefnaskil
Sömu reglur og áður: „Frestur er nánast aldrei gefinn á verkefnaskilum. Eina undantekningin eru mjög alvarleg veikindi nemanda eða fráfall náins ættingja. Skólameistari Lára Stefánsdóttir, lara@mtr.is er eini starfsmaðurinn sem hefur heimild til að semja um skil utan skilatíma.“

Viðtalstímar
Viðtalstímar kennara eru á sama tíma og venjulega en sjá má hér hvernig ná má sambandi við þá í viðtalstímanum. https://www.mtr.is/is/namid/vidtalstimar-umsjonarkennara

Val fyrir næstu haustönn
Nemendur geta leitað til umsjónarkennara sinna varðandi val fyrir haustönn en einnig áfangastjóra eða náms- og starfsráðgjafa eftir því sem við á. Valtímabil verður ekki framlengt. Munið að þið tryggið skólavist næsta haust með því að velja. 

Námsráðgjöf
Námsráðgjöf mun einungis breyta frá staðveru á netið. Nemendur geta haft samband við ráðgjafa í tölvupósti, í námsþjónustunni fyrir nemendur í Moodle og í síma mánudaga til miðvikudags. Hægt er að panta tíma.

Sálfræðiþjónusta
Náms- og starfsráðgjafi heldur utan um pantanir í sálfræðiþjónustu, sálfræðingur verður til taks á miðvikudögum eins og verið hefur. Viðtalstímar verða útfærðir á neti.

Starfsbraut
Útfærsla náms á starfsbraut verður sú sama og hér að ofan greinir í flestum tilfellum. Beinið spurningum til Hólmars Hákons Óðinssonar, holmar@mtr.is

Lára Stefánsdóttir skólameistari segir “að nú sé um að gera að taka þetta sem nám í að stjórna sjálfum sér til náms og styðja hvert annað eins og kostur er. Við í skólanum viljum allt fyrir ykkur gera sem í okkar valdi stendur þannig að námið ykkar gangi vel. Hafið samband ef eitthvað bjátar á og við gerum okkar besta til að leysa úr því”.