Þarna sat hann, sjómannslega árla morguns, aleinn, uppi í fjalli á gömlum mosagrónum vinalegum steini, sem hann þekkti svo vel úr sínum reglulegu gönguferðum á þessum gamla sikk-sakk vegaslóða. Sem hér á árunum áður, leiddi hann sjálfan og annað ástarleitandi fólk upp í fallega lautarferðar fjallaskál, beint fyrir ofan sjálfa síldar mannlífsiðandi Siglufjarðar eyrina.
Guðjón gamli var djúpt hugsi um erfiða atburði liðinnar nætur, en samtímis gat hann ekki að því gert, að illa sofinn og uppgefinn hugur hans, reikaði inn í einhverskonar lífsuppgjör um hverfugleika lífsins og alla þá uppsöfnuðu sorg sem hann nú átti erfitt með að halda innandyra í huga sér. Honum varð sí oftar hugsað til þess, hvað líf hans breytist mikið, eftir að hann sem var fæddur 1909 inn í sára barnadauða fátækt í litlu Hvalvík, hafði flutt hingað í þennan einkennilega og fallega síldarævintýrafjörð vorið 1935.
Komið hingað 26 ára gamall, nýorðinn alsnauður ekkjumaður og einstæður faðir, endurfæddur og nýrisinn upp úr nær tveggja ára berklalegu á Kristneshæli. Þar tóku berklarnir hana Gudda mína… frá mér og tveggja ára gömlum syni okkar. Á Kristneshælinu dó okkar unga hamingja og allir framtíðardraumar mínir líka.
Gaui gamli hafi tekið eftir því á sínum efri vinnuskyldu lausum árum, að hann hugsaði mikið til baka, um líf sitt á Siglufirði og barnæsku í Hvalvík. Honum fannst það merkilegur eiginleiki að getað spólað fram og til baka í minningamyndum sínum, líkt og nú 1989, var hægt að gera með VHS myndbandsspólur og sumt var svo gamalt að það birtist honum eiginlega í svarthvítum og hljóðlausum sorglegum myndum.
Honum varð títt hugsað till þess að hann var miðjubarn í 11 barna systkinaskara, þegar hann fæddist höfðu foreldrar hans þá þegar misst 3 kornabörn í kirkjugarðinn og fjögur til viðbótar fóru sömu leið, áður en hann náði 10 ára aldri. Helvítis berklarnir tóku síðan móður mína líka þegar ég var nýorðinn 12 ára, hugsaði Gaui gamli og hann fann tár renna niður kinnar sínar og samtímis kom upp reiði og sársauki með minningum úr barnæsku þar sem berklarhóstahor og óendaleg sorg, hreinlega lak niður raka veggi fátæktarkofans sem hann ólst upp í inn á Hvalvík. Þrátt fyrir að hafa byrjað lífið með sorg sjö látinna systkina hangandi í loftinu, var samt alltaf til staðar ást og umhyggja, í harðri lífsbaráttunni í kotinu inn á Hvalvík.
Fátæktin drap ekki bara fólkið hans Gaua í Hvalvík, heldur einnig alla drauma um að geta t.d. menntað sig út úr fátæktinni. Eftir þessi berkla veikindaár með tilheyrandi sorg og mótlæti, hafði hann ekki einu sinni efni á að leyfa sér að hafa framtíðardrauma. Samt eru dagdraumar oftast ókeypis.
Gaui gamli gat samt glaðst í hjarta sínu yfir öllum þeim breytingum í lífsgæðum almennings sem hann hafði séð og upplifað sjálfur hér í firðinum fagra, þessa hálfu öld sem hann hafði búið hér. Afkomendur hans og Huldu, seinni eiginkonu hans, voru öll í góðum málum, svo eitthvað hafði hann gert rétt, tekið með sér nægjusemina sem fátækleg barnæska gaf honum í vöggugjöf, inn í líf afkomenda sinna. Aldrei komst ég svo sem svo vel til efna, að ég gæti gefið stórar gjafir, annað en að kannski deila gleði og hjartahlýju…
…Samt leið honum oft eins og að hann hafi komið til Siglufjarðar sem hálfónýtur lífsbaráttu útilegumaður, úr grárri fátæktar forneskju fyrri alda.
Frá Sorgar-vík í Gleði-fjörð?
Maður lærði snemma að bera ekki sorgir sínar á torg, það hafði ekkert upp á sig, því maður náði sjaldan að ná sér á strik á milli áfalla… hugsaði Gaui og dróst ósjálfrátt inn í minningar um sín fyrstu ár hér á Siglufirði.
Eftir að hafa varla staðið í lappirnar eftir eigin langdregin berklaveikindi og eiginkonumissir beið hans fátæktar lífsbaráttan, sem um tíma fjallaði hreinlega um að vilja lifa, en það var þarna skyldumæting í að sjá fyrri ungum móðurlausum syni. Blessaður drengurinn var settur í fóstur hjá föðurafa sínum og hans seinni indælu eiginkonu, stjúpmóður sem ætíð hafði reynst Gaua vel og gefið honum sér 20 árum yngri hálfbróður í kaupbæti.
Hann minntist þess, að þó að það væri ekki langt ferðalag á milli Hvalvíkur og Siglufjarðar, þá var upplifun hans lík því að fara erlendis í annan menningarheim. Síldin bauð upp á möguleikann á að byrja nýtt líf, finna aftur lífsviljann í erfiðisvinnu, sem samt gaf sæmileg laun og mögulegar gleðistundir í fjölbreytilegu skemmtanalífi, í ört vaxandi höfuðborg síldarinnar.
Ég hefði kannski átt að ganga varlega um þessar gleðidyr sem opnuðust of skyndilega fyrir mér niðurbrotnum manninum. Hugsaði Gaui gamli, með bæði gleði tilfinningu og eftirsjá í huga. Hér lifnaði ég við aftur, en ég hefði átt að láta helvítis brennivínið eiga sig… en það deyfði sorgina og gaf mér falskt sjálfstraust í finnast ég vera lifandi og einhvers virði.
Hingað til Siglufjarðar gat hver sem er komið og orðið nýr maður, skapað sér nýja brosandi framhlið á brotna sál. Hér rættust loksins draumar mínir um að fá að sýna hæfileika mína í leiklist, stunda söngæfingar og setja upp bæjarrevíur með öðru skemmtilegu lifandi fólki.
Það var í rauninni lífsbjörg að fara inn í þetta lífsleikritar hlutverk mitt, að verða þekktur sem gleðigjafi, því þannig gat ég hlaupist undan merkjum í minni eiginn sorgarvinnu.
Enginn spyr gleðimann um allar hans sorgir, því ef brosið og gleðisvipurinn er trúverðug framhlið, dettur engum í hug að byrja spjalla og spyrja um sorglega hluti. Já, þannig hef ég komist hjá óþægilegum spurningum og leikið mitt lífshlutverk vel, en þetta gengur ekki lengur, ég get ekki haldið þessu áfram. Ég þekki þessa innri sorgarbaráttu, sem ég er að reyna að berja niður… en ég er að missa hana Huldu mína frá mér… og Gaui gamli dregst inn í hugsanir um erfiða atburði í lífi hans síðustu ár, mánuði, daga og um þessa nýliðnu erfiðu nótt.
Það er eins og að þessi elska eldist aftur á bak, í hugsunum sínum og þeim fáu orðum sem hún nú segir…
Elliglöp og næturbrölt!
Hann hafði vaknað upp með andfælum klukkan hálf þrjú, í litu hjónaíbúðinni sinni á Dvalarheimilinu Skálahlíð. Það sem vakti hann, var glamrandi óhljóð úr eldhúsinu, samfara sterkri brunalykt. Allar hellurnar á eldavélinni voru rauðglóandi undir tómum pottum og pönnum. Guð minn almáttugur, hvað er hún Hulda mín að brasa núna?
Eftir að hafa slökkt á hellunum, flýtir hann sér fram í stofuna til þess að opna svalahurðina og lofta út brunalyktina. Hann sér að hún stendur og trampar ákaft með fótunum, en starir samtímis á gamalt málverk úr eyðifirðinum sem hún fæddist í. Hulda virðist vera djúpt hugsi, en um leið og hann snýr sér að henni, segir hún:
Pabbi, ertu loksins kominn… ætlaðu að fara með mig heim í Hvanndalafjörð?
Elsku Hulda mín, það á enginn heima þar lengur, þú býrð hér á Siglufirði með mér.
Ó Guð… Hún man ekki lengur hver ég er, samt er ég maðurinn sem hefur búið með henni og elskað í yfir hálfa öld.
Þessi heilabilun byrjaði með smávægilegum elliglöpum fyrir nokkrum árum, hafði ágerst mikið síðustu tvö árin eða svo. Gaui gamli þráaðist við lengi vel að sjá um hana Huldu sína heima, honum fannst hann skulda henni svo mikið. Hún hafði alla tíð elskað hann, þrátt fyrir svik og mikla fjarveru frá henni og börnunum, vegna vinnu og ekki síst oft á tíðum vegna langdregna fyllerísskemmtana, en svo gekk þetta ekki lengur, hann var við það að fara af taugum.
Það sem fór verst með hann, var að Hulda átti átti það til að láta sig hverfa skyndilega, fór stundum út, illa klædd um miðja nótt og ráfaði stefnulaust um göturnar á Eyrinni.
Hann, lét undan þrýstingi ættingja og flutti í hjónaíbúð á dvalarheimilinu og vissulega fékk hann ágætis hjálp og smá eigin tíma og hvíld frá umhyggjustörfum sínum kringum hana Huldu sína, en ekki fékk hann mikinn svefnfrið. Síðustu mánuðina var enginn regla á svefninum hjá Huldu, Gaui reyndi eftir bestu getu að róa hana niður og það sem virkaði best var að hann söng fyrir hana falleg gömul lög, sem hann vissi að henni líkaði við og stundum spilaði hann líka á munnhörpuna sína.
Gleðimaðurinn og allar hans sorgir
Hann hafði aldrei verið sá sem ber sínar sorgir á torg, Gaui gamli var meira þekktur fyrir glaðlyndi sitt og vilja sinn til að hjálpa og skemmta öðrum. Gamall æskuvinur úr leikfélaginu sem þekkti hans ævisögu, hafði oft í glasi og glensi sagt, að Gaui Gleðimaður, eins og hann var oft kallaður, væri í rauninni eins og dapur trúður.
Með glaðlynt yfirbragð málað í andlitið, en þeir örfáu sem sáu og þekktu rétta andlitið á bak við trúðagrímuna, vissu að Gaua brosið og smitandi hláturinn, var bara vel leikinn ásýnd, sem leyndi ótal margar stórar og þungar sorgir.
Eftir að Gauja gamla tókst að svæfa hana Huldu sína, þessa erfiðu nótt, hafði hann enga ró í sál eða líkama til að festa sjálfur svefn aftur. Hann læddist óséður út í síðsumarnóttina og gekk síðan að steininum góða upp í fjallshlíðinni. Þarna hafði hann svo oft áður setið í þungum þönkum og hugsað sitt ráð, horft yfir fjörðinn sinn, farið yfir erfiðar minningar í huganum og safnað hugrekki til að snúa aftur til lífsins sem beið hans heima á dvalarheimilinu. Í þetta skiptið, fann hann mikið fyrir uppsafnaðri svefnleysis þreytu og löngun til þess að láta sig hreinlega hverfa, úr lífinu… bænum… firðinum… hann vissi bara ekki hvert.
Honum fannst þessi uppgjafar tilfinning sín vera bæði sár og sorgleg.
Sorgin er lífsförunautur sem ég þekki vel…
…en hún er ekki góð vinkona, því hún er oft svo fyrirferðamikil og erfið að eiga sem vin.
… Hugsaði Gaui Gleðimaður, er ég kannski hreinlega að syrgja lifandi manneskju, syrgja að hún sem hefur elskað mig svo lengi, þekkir mig ekki lengur. Hún er samt hvorki dáinn eða farinn frá mér. Hún hefur aldrei svikið mig, en ég oft í gleðimanna lífi mínu brugðist henni. Hún Hulda mín er ekki sjálfráða í þessum hræðilega sjúkdómi sínum … hugur hennar og minningar deyja á undan sjálfum líkamanum.
Aldrað náttúrubarn með heimþrá
Það er kannski ekki svo skrítið að hún Hulda mín tali um að hún vilji fara heim. Hún átti sér góða barnæsku í þessum einangraða Hvanndalafirði sem hún ólst upp í og Gaui hvarf nú inn í minningar um þegar hann sá Huldukonuna sína fyrst, í landlegu mannhafinu á Aðalgötunni, sumarið 1936.
Honum fannst hún bera af öllum öðrum ungum síldarstúlkum, sem flestar klæddu sig stórborgarlega. Honum fannst Hulda, sem var þremur árum yngri en hann sjálfur, einna helst líkjast Fjallkonu Íslands. Það geislaði af henni náttúrleg fegurð og lífsgleði og hún var eitthvað svo ósnortin af sorgum lífsins. Líktist einna helst fallegri Holtasóley, sem hafði vaxið úr grasi í Hvanndalafjarðar mýrarfláka, án þess að blotna eða brotna undan ánauð lífsbaráttunnar.
Gaui gamli hugsaði oft mjög svo ljóðrænt og málaði oft sjálfan sig og sitt líf inn í sviðleikmyndir og hlutverk þekkta karaktera sem hann hafði sjálfur leikið með leikfélagi Siglufjarðar. Hann minntist þess vel, að hafa þurft að hafa nokkuð mikið fyrir því að gera hosur sínar grænar fyrir Huldu. Þegar hann gekk úr skarkala og síldarvinnslu látunum á Siglufirði, einn yfir Kálfdalsskarðið og kom síðan niður úr þokuslæðingi inn í þennan fagra, hljóðláta og einangraða Hulduheim. Hún og hennar fólk tók honum vel, enda er það ekki talinn Íslensk kurteisi að fátækt, nægjusamt alþýðufólk, dæmi aðra sér fátækari.
Hún var og er enn yndið mitt yngsta og besta, konan sem kenndi mér að elska lífið aftur. Hennar skilyrðislausa ást og umhyggja, setti hreinlega “Sálina hans Gaua míns” í poka og hún henti sál minni hreinlega yfir lífsins “Gullna hlið” og ég vaknaði upp úr mínum sára sorgardauða til lífsins, réttum megin við dauðan.
Sem ný manneskja, sem skyndilega hafði efni á að leyfa sér aftur að dagdreyma um ókomna framtíð…
Já, ég skulda henni Huldu minni mikið, en eins og ástandið er núna er ég algjörlega ráðalaus… ég þarf að komast í burtu… ná áttum og kannski biðja um hjálp líka, án þess að aðrir haldi að ég sé að yfirgefa ást mína og ábyrgð á…
… hugsar Gaui gamli sem situr enn þungt hugsi upp í fjalli, á sínum vinalega steini og hann horfir yfir fjörðinn og samtímis sér hann fyrir sér horfnar gleði og sorgar stundir.

Ef lífið er eitthvað, þá virðist mér það aðallega vera breytilegt…
Sagði Gaui upphátt við sjálfan sig og hvarf aftur inn í hugsanir um hverfugleika lífsins, en ég fékk samt mörg góð ár, eftir að ég endurfæddist hér á Siglufirði.
1937 fæddist okkur sonur, eftir ansi erfiða meðgöngu og fæðingu, síðan tvær dætur, sú eldir kom 1939 og sú yngsta 1942. Þrátt fyrir að dæturnar fæddust inn í heimsstyrjaldarár, varð lífsbaráttan og brauðstritið loksins léttara, nýr lífskraftur og vilji kom sjálfkrafa úr ást hans og Huldu samfara ábyrgð á barnauppeldi. Margar gleðimannastundir og áköf þátttaka í leiklistar og menningarlífi bæjarins fylgdu vinnurólegheitum yfir myrkra vetrarmánuði og voru þessar stundir góð hvíld frá áköfu vinnuamstri síldarsumarsins.
Gaua hafði lengi langað til þess að fá til sín soninn frá Hvalvík, en fljótlega kom í ljós að yngri sonurinn var ekki alveg heill heilsu vegna þroskaskerðingar, sem virtist tengjast súrefnisskorti við fæðingu. Það var því mjög svo krefjandi að sinna honum og tveimur yngri systrum hans samtímis. Drengurinn í Hvalvík var í góðu yfirlæti hjá afa sínum og fósturömmu og ólst þar upp með nokkrum árum eldri hálfbróður föður síns og enginn ástæða að rífa hann upp frá góðum rótum sínum þar.
Einhver umræða kom upp snemma um að láta yngri drenginn frá sér inn á stofnun, en Gaui og Hulda þvertóku fyrir það lengi vel. Svo þegar blessaður drengurinn var að nálgast fermingaraldurinn, gekk þetta ekki upp lengur, því á Siglufirði var ekki til nein þjónusta fyrir börn með sérþarfir.
Gaui minnist þess með hryllingi að hafa neyðst til að leika sitt versta hlutverk. Setja á svið leikrit, um að þeir feðgar væru að fara í skemmtilegar sumarbúðir í stórum rútubíl. Fyrst alla leið til Reykjavíkur og þaðan á spennandi og skemmtilegan stað sem hét Sólheimar.
Pabbi, er alltaf sól þar?
Spurði forvitin þroskaheftur sonur, ómeðvitaður um að spurningin beindist að manni sem varð nú að láta frá sér son í annað skiptið á ævinni.
Þetta var mér hræðilega erfitt ferðalag, ég grét alla leiðina heim og svo var blessaður drengurinn hreinlega tíndur í þessum einkennilega stofnana heimi í 40 ár, en svo kom hann loksins heim til okkar á Sigló á nýopnað sambýlið… Með sama fallega barnabrosið í öldruðu andliti. Hugsaði Gaui og þurrkaði tár sem runnu ákaft niður hrukkóttar kinnar úr gláku gráum öldruðum augum.
Hringrás lífs og dauða
Gaua gamla varð oft á efri árum hugsað til þess, að hann hafi kvatt 9 látna fjölskyldumeðlimi í kirkjugarðinum í Hvalvík. Unga eiginkonu, móðir og 7 systkini. Allt saman fólk sem fylgdi hans sorg í vöku jafnt sem draumi. Þetta voru andlit sem hann vildi alls ekki gleyma. Því hann átti engar ljósmyndir, sem héldu minningar myndum hans lifandi, en svo fannst honum einhverskonar guðdómleg hringrásar endurvinnsla liggja í því að sjá svip og nöfn látinna ættingja endurfæðast í eigin börnum og barnabörnum.
Í lok 1950 og byrjun 1960 gaf lífið honum mörg barnabörn á bæði Siglufirði og inn á Hvalvík, þetta voru gleðiár sem virtust engan enda taka, en svo varð skyndilega 9 apríl 1963, einn af mínum stærstu sorgardögum. Hugsar Gaui gamli, sem fann að þó um 30 ár höfðu nú liðið frá þessum sorglega atburði. Brást líkami hans og sálarlíf við minningunum um þennan hræðilega Páskahretadag, líkt og hann hefði fengið skilaboð símleiðis í gær, um að ástkær sonur hans, sem þá var ungur skipstjóri í blóma lífsins og einnig ungur hálfbróðir, væru tveir af 18 sjómönnum sem fórust þennan dag.
Þetta var eitthvað svo óendanlega sárt og óskiljanlegt…. algjört sorgar rothögg. Ung og ólétt tveggja barna tengdadóttir mín varð skyndilega ekkja, rétt tæplega þrítug… Það er eitthvað svo ónáttúrulegt við það að þvingast stuttu seinna til að fæða dóttur inn í svona botnlausa föðurlausa sorg. Hér þurfti ég virkilega að nota alla mína sorgar reynslu í að standa sjálfur í lappirnar og styðja við 3 föðurlaus barnabörn. Það var mér nokkur huggun í harmi, að nokkrum vikum seinna fá dótturson sem bar hans nafn inn í sína og mína ókomnu framtíð.
Gaui vaknar upp úr löngum og þungum sorgarþönkum sínum upp í fjalli, það er farið að birta af degi og köld norðangola vekur hann til lífsins með áköfum kuldahrolli. Jæja, best að ég læðist heim að kíkja aðeins eftir henni Huldu minni… ef hún er sofandi, þá læt ég mig bara hverfa…
Símtal kl. 13.10 frá Siglufirði til barnabarns afa í Reykjavík
Hefurðu eitthvað heyrt í afa þínum í dag?
Ha, nei mamma, ég spjallaði stutt við hann í gær, hann var svolítið þreyttur, bölvuð óregla á svefninum hjá ömmu aftur, annars var hann bara nokkuð hress. Hvað, er eitthvað að?
Veit það ekki, en hann er hreinlega horfin…
Er hann ekki bara úti í Hvanneyrarskála göngutúr, hefur hann kannski dottið og meitt sig á leiðinni…
Pabbi þinn og mágur hans fóru á jeppanum í hádeginu og leituðu út um allt, alla leið upp í skál og suður á fjörð o.fl.
Eftir þetta er öll ættin í stanslausum áhyggjufullum símtölum fram eftir degi.
Aldrað strokubarn lætur loksins vita af sér
Afi Gaui: Sæll ljúfur, jæja, ég er kominn, komdu og náðu í mig!
Barnabarn í Reykjavík: Ha, komin hvert, elsku afi, hvar ertu eiginlega?
Ég er á BSÍ, komdu og náðu í mig…
Stuttu seinna faðmar barnabarnið hálfklökkan strokubarns afa sinn og í bílnum á leiðinni heim í hús, brotnar gamli maðurinn saman og biðst innilega afsökunar á að hafa ekki hringt fyrr… en ég var svo ákveðinn í því að fara óséður í rútuna úr bænum og svo ætlaði ég að hringa tímalega í þig úr tíkallasíma í Varmahlíð… en ég steinsofnaði… var alveg búinn á því… barnalegt af mér að gera svona…
Elsku afi, þú ert svo hjartanlega velkominn og ég veit alveg að þú ert búinn að hafa það erfitt, þó þú haldir að þú sért svo duglegur við að dylja allar þínar raunir og sorgir… en það er ekkert svo vitlaust að þora að opna sig og biðja um hjálp annars lagið, eða hvað?
Já, en ljúfurinn minn góði, maður vill ekki vera til vandræða fyrir aðra… en ég verð bara að fá smá hvíld og ná áttum, maður hugsar ekki heila hugsun ósofinn og útslitinn…
Heyrðirðu eitthvað frá ömmu þinni, varð hún kannski óróleg þegar hún vaknaði ein og yfirgefin ?
Nei, nei, þú þarft ekkert að hafa áhyggjur af ömmu, hún er komin í góða vist á sjúkradeildinni og dætur þínar eru að vinna í því að hún verði þar til frambúðar, þannig að þetta reddast allt saman.
Fyrirgefðu mér elsku vinur, en þetta var ferlega barnalega gert af mér að strjúka svona að heiman, en það skrítna var að þegar ég kom heim snemma í morgun úr göngutúrnum, sá ég myndina af honum nafna mínum sem þú sendir til mín í síðustu viku og þá greip mig þessi ógurlega löngun í að fá að sjá hann, áður en þú ferð í námið í útlöndum… Hvað er litli kúturinn gamall núna?
Hann Guðjón Gleðibolti er að verða 6 mánaða og hann er svo sannarlega réttnefndur og mjög líkur langafa sínum.
Höfundur:
Jón Ólafur Björgvinsson
Ljósmyndir eru framleiddar með aðstoð frá Microsoft Bing AI gervigreind.
ATH.
Þessi smásaga er skáldsaga, en hún byggir á sannsögulegum æviágripum úr lífi persónu sem var höfundi mikið kær. Sjá meira hér:
JÓLASVEINNINN Í KJÖTBÚÐINNI ER AFI MINN