Björgunarsveitir eru betur settar með nýjum hópslysakerrum. Risastórt tjald, sjúkrabörur og ullarteppi eru í hverjum pakka sem er gjöf frá Isavia. Umferðarslys sem fylgja fjölgun ferðamanna eru oft viðfangsefni björgunarfólks.
„Slysin verða oft í dreifbýlinu og þar þarf góð tæki, ekki síst á svæðum þar sem langt er í aðrar bjargir og búnað. Við lögðumst í greiningarvinnu og fundum út á hvaða stöðum þessum búnaði væri best fyrir komið. Þar höfðum við meðal annars í huga slys sem tengja má ferðalögum fólks um landið. Þar á oft í hlut fólk sem er alls óvant ferðalögum, til dæmis í misjöfnum veðrum og á vondum vegum þar sem eru einbreiðar brýr,“ segir Smári Sigurðsson, formaður Slysavarnafélagsins Landsbjargar.
Í fyrri viku afhentu fulltrúar Isavia Slysavarnafélaginu Landsbjörg níu hópslysakerrur sem eru afrakstur sameiginlegs verkefnis styrktarsjóðs Isavia og björgunarsveitanna. Í hverri kerru eru meðal annars 18 sjúkrabörur, 35 fermetra tjald, rafstöð, ljósabúnaður, loftdæla, hitablásari og 30 ullarteppi. Björgunarsveitirnar sem fengu kerrurnar eru í Ólafsvík, á Patreksfirði, Hólmavík, Hvammstanga, í Varmahlíð, á Djúpavogi, í Vík í Mýrdal og á Flúðum. Áður voru kerrur farnar til björgunarsveitanna á Ísafirði, í Mývatnssveit og Öræfasveit. Frá árinu 2011 hefur Isavia lagt fram samtals 76 milljónir til að efla viðbúnað vegna hópslysa; fyrst á flugvöllum en nú er horft til þess að styrkja viðbrögð á fjölförnum ferðamannastöðum.
Af mbl.is