Netverslun hefur aukist mikið enda einföld og þægileg leið til að ganga frá kaupum segir á vefsíðu Arion banka. Það er yfirleitt einfalt að versla á netinu en við hvetjum viðskiptavini okkar að hafa eftirfarandi atriði í huga til að auka öryggi og tryggja að kaup fari vel fram.

Kynntu þér við hvern þú verslar

Það er mikilvægt að þekkja vöruna og seljandann áður þú gefur upp kortaupplýsingar. Ef seljandi er óþekktur er gott að leita að nafni verslunarinnar á netinu eða spyrjast fyrir um reynslu annarra. Öruggast er að versla við aðila sem þú þekkir og veist að aðrir hafa góða reynslu af.

Varastu tilboð sem eru of góð til að vera sönn

Ef tilboð hljómar grunsamlega gott eða eitthvað í umgjörð verslunar er grunsamlegt ráðleggjum við þér að hætta við kaupin, að minnsta kosti þar til þú hefur kynnt þér hlutina betur. Dæmi um tilboð sem ráðlagt er að skoða sérstaklega vel eru t.d. óvænt endurgreiðsla, arfur, vinningur eða tilboð sem lofa skjótfengnum gróða s.s. verðbréf, Bitcoin eða annar rafeyrir.

Frí prufa á netinu

Lestu skilmála vel ef þú skráir kortið þitt fyrir gjaldfrjálsri prufuáskrift á netinu. Oft kemur fram í smáa letrinu að kortið verði skuldfært ef uppsögn á áskrift berst ekki innan tilskilinna tímamarka.

Vottun Visa – Netöryggisnúmer sem kemur í stað PIN númers

Til að tryggja öryggi bjóða margar netverslanir viðskiptavinum að ganga frá kaupum með öryggisnúmeri sem korthafi fær sent frá Visa í farsímanúmer sem tengist kortinu. Við það að slá inn öryggisnúmerið við kaup þá staðfestir kaupandi að hann sé sjálfur handhafi kortsins. Þannig kemur öryggisnúmerið í stað PIN númers sem notað er þegar kort eru notuð í posum. Mikilvægt er að ganga úr skugga um að upphæð og nafn seljanda sem fylgir öryggisnúmeri í SMS skilaboðum passi við kaupin.

ATHUGIÐ – aldrei skal gefa upp öryggisnúmer til þriðja aðila nema til þess að ganga frá kaupum. Aldrei skal gefa upp öryggisnúmer vegna móttöku á endurgreiðslu.

Geymdu afrit af bókunum, kvittunum og öðrum skjölum sem þú færð í tengslum við netviðskipti

Ef varan berst ekki til þín og þú þarft að óska eftir endurgreiðslu á kortafærslunni er mikilvægt að þú framvísir þessum gögnum til að tryggja að þú fáir endurgreitt.

Að greiða í erlendri mynt eða íslenskum krónum

Algengt er að erlendir seljendur bjóði viðskiptavinum að ganga frá kaupum í íslenskum krónum. Í mörgum tilfellum er það gengi sem seljendur bjóða óhagstæðara en gengi Arion banka. Það er því mikilvægt að bera saman og skoða kjörin sem bjóðast. Gengi Arion banka er hægt að nálgast hér.

Að lokum viljum við benda viðskiptavinum okkar á að einfalt er að fylgjast með kortafærslum í Arion appinu. Ef viðskiptavinur verður var við óeðlilegar færslur á korti sínu, ráðleggjum við honum að frysta kortið strax í appinu á meðan gengið er úr skugga um hvort um réttmætar færslur er að ræða.

Mynd/pixabay