Af því að sumarveðrið að undanförnu hefur verið heldur risjótt og verður það líkast til enn um sinn, er mjög jákvætt að sjá hvað virðist ætla að rætast vel úr laugardeginum um mest allt land, segir Einar Sveinbjörnsson veðurfræðingur á vefsíðu Bliku.is.
Frá því seinnipartinn í dag, föstudag og á morgun, mun víðast hvar verða þurrt og með hægum vindi hægur. Reyndar skýjað, og ekki alveg skúralaust alls staðar! En sólin ætti þó að brjótast fram svona hér og hvar. Einkum suðaustan- og austanlands og eins inn til landsins. Þar verður líka hlýjast, en ólíklegt þó að hitinn rjúfi 20 stigin þar sem hlýjast verður.
Á sunnudag fer síðan að rigna sunnan- og vestantil með skilum lægðar sem koma úr suðvestri, einkum þegar líður á daginn.
En að úr rætist á morgun laugardag, skiptir miklu. Fólk er á faraldsfæti um land allt um þessa helgi, stór hluti landsmanna í sumarfríi, bæjarhátíðir, íþróttamót, fjölskyldu- og ættarmót, giftingar o.s.frv.
Mynd/Blika.is