26 ára gömul kona frá Úkraínu hefur verið ákærð fyrir að hafa starfað á kaffihúsinu Hlöðunni á Hvammstanga án þess að hafa til þess tilskilið atvinnuleyfi.

Greint er frá ákærunni í Lögbirtingablaðinu en Ríkisútvarpið greindi fyrst frá.

Segir þar að í ákæru er þess krafist að konan verði dæmd til refsingar og til að greiða sakarkostnað. Ákæran var birt í Lögbirtingablaðinu í gær. Í fyrirkalli kemur fram að ef ákærða sækir ekki dómþing megi hún búast við því að fjarvist hennar verði metin til jafns við það að hún viðurkenni að hafa framið brot það sem hún er ákærð fyrir og dómur verði lagður á málið að henni fjarstaddri.

Samkvæmt lögum um atvinnuréttindi útlendinga má konan eiga von á sektum eða fangelsi allt að sex mánuðum.