MTR hefur tekið annað skrefið í verkefninu Græn skref í ríkisrekstri og fengið það vottað og viðurkennt. Sorpflokkun hefur verið aukin og er ekki lengur hægt að henda – nema flokka. Notkun pappírs handþurrka á salernum var hætt. Í staðinn kemur ýmist blásturshandþurrkun eða gamaldags handklæði.

Aðeins er keyptur umhverfisvottaður pappír og sama gildir um vörur sem unnar eru úr pappír. Þá hefur skólinn sett sér stefnu sem hefur að markmiði að gera starfsemina umhverfisvænni, bæta starfsumhverfi og auka vellíðan. Sjá nánar hér: https://www.mtr.is/is/skolinn/aaetlanir-og-stefnur/umhverfisstefna-mtr

Markmið verkefnisins Græn skref í ríkisrekstri eru að efla vistvænan rekstur á kerfisbundinn hátt. Byggt er á grænum skrefum Reykjavíkurborgar, verkefni sem hófst haustið 2014.  Nokkrar stofnanir umhverfis- og auðlindaráðuneytis hafa tekið þátt í að aðlaga verkefnið að ríkisrekstri. Tilgangurinn er að hafa jákvæð áhrif á umhverfið, bæta ímynd og starfsumhverfi  stofnana og draga úr kostnaði. Sjá nánar hér: http://graenskref.is/um-verkefnidh

Tengiliður verkefnisins í MTR er Unnur Hafstað en við framkvæmdina reynir mest á Björgu Traustadóttur, Gísla Kristinsson og Jónínu Kristjánsdóttur, sem sjá um rekstur, innkaup og þrif hússins.

Björg og Jóna Vilhelmína Héðinsdóttir, aðstoðarskólameistari, eru með Steinunni Karlsdóttur á myndinni, sem tekin var föstudaginn 31. ágúst þegar viðurkenningin fyrir annað græna skrefið var afhent

 

Frétt og myndir: MTR