Inga Sæland, félags- og húsnæðismálaráðherra, mælti í dag fyrir frumvarpi sem kveður á um að greiðslur almannatrygginga skuli fylgja launavísitölu. Í frumvarpinu er lagt til að greiðslur almannatrygginga muni framvegis fylgja þróun launavísitölu sem Hagstofa Íslands reiknar út og birtir, í stað þess að taka mið af spá um launaþróun. Greiðslur almannatrygginga eru að stærstum hluta ellilífeyrir og greiðslur vegna örorku og endurhæfingar.
„Tillaga frumvarpsins um tengingu greiðslna almannatrygginga við launavísitölu er í samræmi við fyrirheit í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar um að leitast við að uppræta fátækt og lyfta greiðslum almannatrygginga til tekjulægri lífeyrisþega. Með því að lögfesta þessa breytingu eru stigin mikilvæg skref í átt að réttlátara samfélagi þar sem meiri jöfnuður ríkir,“ sagði ráðherra í framsöguræðu sinni á Alþingi í dag.
Bilið milli launa og lífeyris hafi breikkað
Ráðherra benti á að núverandi fyrirkomulag hefði valdið því að bilið á milli launa og lífeyris hefði breikkað ár frá ári.
„Með því að tengja lífeyri almannatrygginga við launavísitölu girðum við fyrir að þetta gerist aftur og tryggjum örorku- og ellilífeyrisþegum ígildi sætis við kjaraborðið,“ sagði hún og lagði áherslu á að eftir breytingarnar yrði betur tryggt að þeir sem reiða sig á greiðslur úr almannatryggingum dragist ekki aftur úr öðrum þegar kemur að kaupmætti. Að miða við útgefna launavísitölu fremur en launaþróun yki jafnframt gagnsæi og fyrirsjáanleika.
Tillagan að breytingunni sem frumvarpið gerir ráð fyrir var áður lögð fram á síðasta löggjafarþingi en Alþingi lauk ekki afgreiðslu þess frumvarps. Tillagan er nú endurflutt óbreytt en í sérstöku frumvarpi.
.png?proc=LargeImage)
Hvað er átt við með launavísitölu?
Launavísitala er gefin út af Hagstofu Íslands og er opinber mæling á breytingum heildarlauna í samræmi við lög um launavísitölu. Mælingin er aðgengileg öllum.