Lið Grunnskóla Húnaþings vestra átti glæsilega frammistöðu í hæfileikakeppninni Fiðringi sem fram fór á Akureyri og tryggði sér sigur í keppninni. Þetta var í fyrsta sinn sem skólinn sendi lið til þátttöku í Fiðringi, sem er keppni ætluð nemendum í 8.–10. bekk og svipar til Skrekks í Reykjavík og Skjálftans á Suðurlandi.

Atriði liðsins vakti mikla athygli og fékk frábærar undirtektir. Það var bæði áhrifamikið og metnaðarfullt og fjallaði um baráttu kvenna í gegnum tíðina. Innblástur fyrir atriðið kom meðal annars úr fræðslu sem 10. bekkur fékk um líf og störf Vigdísar Finnbogadóttur, fyrrverandi forseta Íslands. Sú fræðsla opnaði augun fyrir sögu kvennabaráttunnar og hafði djúp áhrif á nemendur. Einnig höfðu núverandi atburðir í alþjóðasamfélaginu áhrif á efnisval hópsins.

Lið Grunnskóla Húnaþings vestra sem bar sigur úr býtum í Fiðringi 2025.. Mynd/af vefsíðu Húnaþings vestra

Frammistaða hópsins var til fyrirmyndar, bæði á sviðinu og í bakvinnu. Meðlimir hópsins sýndu mikinn dugnað, metnað og hugrekki í allri sinni vinnu.

Atriðið var flutt af Anítu Rós, Álfhildi, Friðrikku, Fríðu, Gabríelu, Ingu Lenu, Íseyju Lilju, Júlíu, Líneyju, Rakel og Valdísi. Í undirbúningi komu einnig að verki Bríet Anja, Emelía Íris og Ronja Dís. Tæknimál voru í höndum Ara Karls og Benna.

Upptöku af atriðinu má finna hér.