Lið Íslands tekur nú þátt í Netöryggiskeppni Evrópu (e. European Cyber Security Challenge) sem stendur yfir í Tórínó á Ítalíu dagana 8.-11. október. Lið Íslands er skipað þeim keppendum sem náðu bestum árangri í Gagnaglímunni, Netöryggiskeppni Íslands, sem haldin var 25. maí síðastliðinn fyrir ungmenni á aldrinum 14 til 25 ára.

Í Netöryggiskeppni Evrópu munu lið frá 37 löndum keppa í áskorunum á borð við Capture-The-Flag, Jeopardy og Attack-Defense. Tilgangur keppninnar er að vekja áhuga ungs fólks á netöryggi og ýta undir menntun og þjálfun í tölvuöryggismálum í Evrópu.

Hægt er að fylgjast með keppninni í beinni útsendingu á YouTube en hún stendur yfir í dag og á morgun. Keppninni lýkur síðan með verðlaunaafhendingu 11. október.

Mynd/aðsend